137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

fyrningarleið í sjávarútvegi.

[10:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það virðist grúfa mikil og vaxandi óvissa yfir mögulegum áformum hæstv. ríkisstjórnar um svokallaðri fyrningarleið. Ég var á ákaflega góðu málþingi í Vestmannaeyjum í gær þar sem fram kom af hálfu formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis að hann teldi að það ríkti fullkomin óvissa um hvort þessi leið yrði yfir höfuð farin. Það yrði háð mjög mörgum öðrum þáttum sem þyrftu að ganga upp. Varla höfðu þessi orð hljóðnað þegar fulltrúi Samfylkingarinnar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, hv. þm. Róbert Marshall, kom í útvarpið og sagði frá því að það væri vilji hans að fyrningin gæti átt sér stað á þremur árum.

Hæstv. forsætisráðherra greindi frá því á einhverjum fundi eða í ræðu að það væru áform ríkisstjórnarinnar að hefjast handa við fyrningu aflaheimilda strax 1. september á næsta ári. Hins vegar hafa bæði formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagt að þetta væri ekki svo heldur væri hugmyndin sú að ef á annað borð yrði farið út í fyrningu yrði kynnt áætlun þann 1. september á næsta ári um hvernig farið verður í þetta mál.

Með öðrum orðum ríkir algjör óvissa um hvaða áform eru uppi, hvort menn ætla að fara þessa leið yfir höfuð sem greinilega eru efasemdir um, bæði af hálfu formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra skeri úr um þetta mál vegna þess að það er farið að valda mjög miklu tjóni. Það kemur fram í því að fyrirtæki þurfa að fara að segja upp fólki, stöðva starfsemi sína, eins og t.d. fyrirtækið 3X Technology ehf. á Ísafirði sem í fyrsta skipti verður að vera með sumarlokun sem er bein afleiðing af hótun ríkisstjórnarinnar um fyrningarleið.