137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

fyrningarleið í sjávarútvegi.

[11:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ekki voru þetta nú mjög skýr svör. Það er auðvitað vilji allra að reyna að ná sátt um þetta mál. En það er hins vegar alveg ljóst að það verður engin sátt um fyrningarleiðina. Það er bara stríðsyfirlýsing gagnvart sjávarútveginum eins og margoft hefur komið fram.

Þess vegna verður hæstv. ráðherra að svara þessu skýrar: Er það hugmynd ríkisstjórnarinnar að setja af stað fyrningu 1. september á næsta ári? Eða er það réttur skilningur á því sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að ef á annað borð verði farin þessi leið verði kynnt einhver áform í þessum efnum 1. september? Hæstv. forsætisráðherra verður að svara þessu miklu skýrar.

Það liggur fyrir vönduð úttekt endurskoðenda á mjög alvarlegum afleiðingum sem þessi leið, ef farin verður, mundi hafa fyrir sjávarútveginn. Það liggur til að mynda fyrir mat forsvarsmanna fyrirtækisins 3X Technology ehf. um að fyrningarleiðin hefði þegar haft þau alvarlegu áhrif sem ég nefndi hér. Skaðinn er því að mörgu leyti skeður. Það skiptir máli að hæstv. forsætisráðherra tali skýrt vegna þess að einstakir þingmenn og fulltrúar og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) tala með þeim hætti að jafnvel eigi að herða á og flýta þessari fyrningu og hafa hana á þremur árum sem mundi auðvitað gera út af við sjávarútveginn. (Gripið fram í.)