137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég kem upp til að ræða um fundarstjórn í ljósi þess að við í stjórnarandstöðunni höfum fengið mjög misvísandi upplýsingar um stöðu Icesave-mála og í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra fór ekki með rétt mál í þinginu í fyrradag. Því vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hún hyggist beita sér fyrir að almenningur fái upplýsingar um hvað stjórnvöld eru að fara í málefnum Icesave-reikninganna þar sem verið er að skuldbinda íslenska þjóð mörg ár fram í tímann um gríðarlegar fjárhæðir. Ég ætla ekki að standa hér lengur, hæstv. forseti, sem fulltrúi almennings og vera með einhvern leyndarhjúp í máli sem þessu. Ég krefst þess að allri leynd af þessu máli verði aflétt. Ég vil heyra það frá hæstv. forseta hvort hún sé ekki reiðubúin til að ganga í lið með okkur í stjórnarandstöðunni til að upplýsa almenning á Íslandi um hvað er í gangi í samfélaginu og að við þingmenn þurfum ekki að lesa allar fréttir fyrst í blöðum og að þær upplýsingar komi (Forseti hringir.) síðast inn í þingsali. Það er algjörlega óviðunandi, frú forseti.