137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:34]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil stíga hér upp til að taka undir með þeim sem hafa tekið til máls um mikilvægi Icesave-málsins sem í morgun var kynnt bæði í utanríkismálanefnd og fyrir þingflokkum. Og vegna þess sem fram hefur komið frá hæstv. forsætisráðherra og eftir atvikum öðrum ráðherrum í ríkisstjórn finnst mér gríðarlega mikilvægt að þingið sé í stakk búið til að tjá sig jafnfrjálslega um málið á grundvelli þeirra upplýsinga sem það hefur fengið og þeir ráðherrar í ríkisstjórninni sem á sama tíma eiga samskipti við fjölmiðla um það.

Auðvitað er augljóst að hér er lagt upp með það að frábærir samningar séu að takast en á grundvelli þess sem kynnt hefur verið fyrir nefndum og þingflokkum er það auðvitað hrein blekking. Samanburðurinn sem á að lýsa þessum frábæra samningi, þessari frábæru niðurstöðu er einhver ímyndaður samningur sem átti mögulega að gera einhvern tíma í vetur sem aldrei stóð til að gera.

Þetta mál þarf að fást rætt í þinginu, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, og ég treysti því að forseti beiti sér fyrir umræðu um málið.