137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Tildrög samningaviðræðna um Icesave-reikningana voru meðal annars þau að Alþingi veitti ríkisstjórninni sérstakt samningsumboð. Það er því eðlilegt að Alþingi geri þá kröfu að áður en skrifað er undir þá samninga hafi farið fram sæmileg og fullnægjandi kynning á málinu. Í dag hafa farið fram ákveðnar kynningar í þingflokkunum sem þó eru þess eðlis að það er ekki vinnandi vegur fyrir þingmenn að mynda sér einhverja sérstaka skoðun í málinu á grundvelli þeirrar kynningar. Þetta er ekkert samráð hér sem hefur verið viðhaft.

Ég tel að það sé ekki nokkur vinnandi vegur að halda áfram með þessa umræðu. Hér eru ekki neinir ráðherrar ríkisstjórnarinnar, örfáir þingmenn stjórnarmeirihlutans, og ég held að það væri rétt, frú forseti, að fresta fundi og kalla hingað þá ráðherra sem eiga að fjalla um þessi mál. Hér er um að ræða svo gríðarlega hagsmuni íslensku þjóðarinnar að það er ekki annað við hæfi en að þeir komi og geri grein fyrir málum.

Við þurfum til dæmis, virðulegi forseti, að ganga úr skugga um hvort það standi til að skrifa undir þessa samninga í dag eða á morgun, eða hvernig standa þessi mál? Við þurfum að fá skýr svör. (Forseti hringir.) Þau svör sem hafa komið frá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra eru (Forseti hringir.) í besta falli óljós hvað það varðar.