137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:54]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar eitt mikilvægasta mál sem Ísland hefur staðið frammi fyrir í mjög svo langan tíma, ef nokkurn tíma. Til stendur að skuldbinda þjóðina verulega og um það hvílir hvílík leynd að annað eins hefur ekki heyrst. Rétt þegar þingflokksfundum var lokið þar sem fram hafði komið að trúnaður þingmanna yrði að vera skýr kemur hæstv. forsætisráðherra í fjölmiðla og talar sig hása um það sem okkur hafði áður verið sagt að trúnaður yrði að gilda um. Þetta eru náttúrlega algjörlega fáránleg vinnubrögð sem kemur ekki til greina að verði liðin á Alþingi.

Það er mjög athyglisvert að ekki einn einasti ráðherra hefur áhuga á því að vera í þinginu að ræða við stjórnarandstöðuna um þetta mikilvæga mál. Stöku stjórnarþingmaður er hér lúpulegur í salnum. Það kemur ekki annað til greina, frú forseti, en að þingfundi verði frestað þegar í stað og fundur verði kallaður saman með formönnum þingflokka til að leita leiða til þess að þetta mál verði rætt þegar í stað. Þetta er ekki mál sem á að taka upp á þinginu þegar búið er að ganga frá því.