137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:55]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil koma upp enn á ný og biðja hæstv. forseta um að beita sér í því að við fáum að ræða þetta mál opinskátt. Það gengur ekki að ríkisstjórnarflokkarnir biðji stjórnarandstöðuna um trúnað en hlaupi svo sjálfir í fjölmiðla til að afvegaleiða umræðuna. Þar kemur bara annað sjónarmiðið fram. Þetta kallast að spila ekki „fair play“, ekki réttlátan leik. Það er ósanngjarnt að gera þetta svona.

Menn hafa fallið í þessa gryfju áður. Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði fyrir ekki svo löngu síðan að það væri að koma glæsileg niðurstaða í Icesave-deiluna en þurft svo að draga það til baka og biðjast afsökunar og segja: „Þessi niðurstaða getur aldrei orðið glæsileg.“

Núna segir hæstv. forsætisráðherra að það sé að koma niðurstaða sem sé miklu betri (Forseti hringir.) en menn áttu von á. Hvílíkt og annað eins. (Forseti hringir.) Ég bið hæstv. forseta um að beita sér í því að þingflokksformenn komi saman og fá ráðherrana hingað til að ræða þá stöðu sem upp er komin.