137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek fyrst og fremst til máls til að benda hæstv. forseta á að ég tel að það sé í rauninni þýðingarlaust að halda þessum fundi áfram meðan ekki fæst úr því skorið hvort við fáum Icesave-málið á dagskrá í dag eða ekki. Það er alveg ljóst að hér er um að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir íslensku þjóðina, eitthvert stærsta málið sem þingmenn þurfa að taka afstöðu til á þessu ári, þessu kjörtímabili jafnvel. Þetta eru gríðarlegar skuldbindingar langt fram í tímann sem um er að ræða og þegar við horfum á þá dagskrá sem liggur fyrir er þar ekkert mál sem ekki má bíða, ekki má víkja til hliðar um stundarsakir til að taka þetta gríðarlega mikilvæga mál á dagskrá. Ég held að það væri miklu meiri bragur á því ef hæstv. forseti gerði hlé á þingfundi þannig að þingflokksformenn gætu rætt saman um fyrirkomulag þessara mála. Ég vil ítreka þá kröfu sem hér hefur komið fram um að við fáum umræðu um Icesave-málið í dag. (Forseti hringir.) Einhvern tíma í framtíðinni er ekki nóg.