137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað sérkennileg umræða. Hér höfum við stjórnarandstæðingar ítrekað komið með skýrar kröfur um að fundi verði frestað og efnt til formannafundar þingflokka til að komast að niðurstöðu um það hvernig haga beri dagskránni í dag. Það er ljóst að það eru allt aðrar forsendur uppi en þegar sú dagskrá var samin sem hér liggur fyrir. Það er komið á dagskrá í þjóðfélagsumræðunni stórmál sem varðar okkur öll, Íslendinga. Það eru atburðir að gerast í dag sem taka þarf afstöðu til. Ríkisstjórnin ætlar að haga því þannig að þingið fái hugsanlega að ræða málið einhvern tíma seinna, ekki í dag, ekki þegar ákvarðanir eru teknar eða atburðirnir eiga sér stað heldur eiga menn að geta tjáð sig um þetta löngu síðar.

Það er athyglisvert að þeir fáu hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sem hafa sést í þinghúsinu hafa verið mállausir. Reyndar virðist einn hafa raknað úr rotinu, hv. þm. Róbert Marshall, sem hefur beðið um (Forseti hringir.) orðið og mun væntanlega skýra sjónarmið ríkisstjórnarinnar á eftir. En þetta eintal okkar stjórnarandstæðinga endurspeglar auðvitað þá miklu óánægju og miklu reiði sem er meðal þingmanna vegna þeirra (Forseti hringir.) vinnubragða sem ríkisstjórnin og því miður hæstv. forseti sýna í þessu máli.