137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:14]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem við viljum leggja áherslu á er að hlutirnir séu gerðir í réttri röð og ef menn vilja kynna fyrir þinginu og treysta á þingviljann í þessu máli sé það raunverulega gert en ekki með einhverjum þykjustuleik.

Ég hlýt að spyrja mig í ljósi greinar sem hæstv. fjármálaráðherra skrifaði í Morgunblaðið undir lok janúarmánaðar þar sem hann fór yfir sorgarsögu Icesave-málsins og lýsti því m.a. að það sé enn örlítil vonarglæta eftir í málinu því að enn ætti Tryggingarsjóður innstæðueigenda eftir að taka við skuldunum og tryggingarupphæðirnar því formlega séð enn á ábyrgð viðkomandi ríkja. Svo segir hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki Tryggingarsjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn.“ (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn.

Stendur þingflokkur Vinstri grænna að baki þessum samningum? Við skulum ekki (Forseti hringir.) lenda í þeirri stöðu að gerður verði samningur sem ekki er meiri hluti fyrir í þinginu. (Forseti hringir.) Um það snýst málið, virðulegi forseti.