137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[14:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það hafa ekki fallið stór orð hér í dag, ekki í neinum samanburði við það stóra mál sem hér er til umræðu (Gripið fram í.) og þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið af hæstv. ríkisstjórn í þessu máli og af stjórnarflokkunum. (Gripið fram í.) Það er alveg hreint með ólíkindum að verða vitni að þessum vinnubrögðum. Ég vil ítreka þá spurningu sem komið hefur fram til hæstv. fjármálaráðherra, sem ég vona að eigi eftir að koma hér upp aftur, um þau ummæli sem hann viðhafði hér og vitnað hefur verið í þar sem hann segir að ekki standi til að ganga frá einhverju samkomulagi næstu daga: Hvað átti hann við?

Í öðru lagi spyr ég um hvað hæstv. ríkisstjórn hafi meint með því að biðja þingflokka stjórnarandstöðunnar um trúnað í þessu máli og hvort forseti geti ekki svarað hv. þingheimi þeirri (Forseti hringir.) spurningu núna að hægt sé að fresta fundi (Forseti hringir.) og fara yfir það með formönnum þingflokkanna (Forseti hringir.) hvað gert verður næst. Eða ætla menn í kjölfarið á þessu að fara í umræðu um einhverjar innleiðingar Evróputilskipana (Forseti hringir.) frá hæstv. félagsmálaráðherra?