137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

meðferð ríkisbanka á fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum.

[14:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Af því að málshefjandi hóf mál sitt á því að ræða annað mál sem hér var á dagskrá á undan og gerði athugasemdir við ummæli mín þess efnis að ef maður fengi ekki hljóð til þess að koma upplýsingum á framfæri í afar takmörkuðum ræðutíma væri það sérstök óvirðing við Alþingi að kvarta undan því, er ég ósammála því. Ég held að virðing Alþingis sé ekki fólgin í því að þeir sem orðið hafi á hverjum tíma geti alls ekki notað það fyrir hávaða í þingsal en það kann að vera skoðun hv. þingmanns. (REÁ: Þetta kemur nú úr hörðustu átt.) Það er að vísu alveg rétt að ég hef stundum gripið fram í.

Varðandi það hins vegar sem hér er á dagskrá og snýr að bönkunum og öðrum fjármálastofnunum væntanlega eftir atvikum er alveg ljóst að eitt mikilvægasta og kannski almikilvægasta verkefni þeirra nú og næstu missirin verður skuldaúrvinnsla og fyrirgreiðsla við fyrirtæki sem mörg hver eru í miklum erfiðleikum og sama má að sjálfsögðu segja um heimili. Þeim mun brýnna er að þessir bankar komist endanlega á koppinn og verði fullfjármagnaðir vegna þess að þeirra bíða og þeir hafa með höndum gríðarlega mikilvæg verkefni í þessum efnum sem tengjast endurskipulagningu í íslensku fjármálalífi og atvinnulífi. Bankarnir, þ.e. nýju ríkisbankarnir þrír, hafa allir sett sér reglur og þær liggja fyrir um það í grófum dráttum hvaða aðferðafræði þeir nota til að vinna úr skuldavanda viðskiptavina sinna. Ég hef þær hér allar saman, aðgerðir Landsbankans gagnvart fyrirtækjum í erfiðleikum, verklagsreglur nýja Kaupþings banka um úrlausn útlánavandamála og leiðbeinandi vinnurammi, úrlausnir fyrir fyrirtæki í tímabundnum erfiðleikum frá Glitni sem þá var.

Þessar reglur voru allar mótaðar í framhaldi af og í samræmi við viðmiðunarreglur Samkeppniseftirlits sem birtust fljótlega eftir hrunið í haust þannig að bankarnir vinna að þessu eftir atvikum með nokkuð samræmdum hætti og í samræmi við þær leiðbeiningar sem komið hafa sérstaklega frá samkeppnisyfirvöldum. Við höfum að sjálfsögðu fundað með bönkunum og þeir hafa kynnt okkur reglur sínar í þessum efnum og sumar þeirra hafa tekið breytingum. Ég hef t.d. nýlega skoðað metnaðarfullar hugmyndir Landsbankans um hvernig unnið skuli úr þessum málum í framhaldinu þannig að bankarnir hafa einnig kynnt ríkinu sem eiganda það hvernig þarna verði staðið að málum.

Fjármálaráðuneytið hefur fengið erlendan ráðgjafa, Ian M. Beith, til að taka út þessa vinnuferla hjá bönkunum. Þeirri vinnu er nú lokið og af samtölum við hann að dæma má ætla að þessi mál séu í allgóðum farvegi og að þekking sé til staðar innan bankanna til að vinna að þessum málum. Drög að þessari úttekt bárust í hádeginu í dag og endanleg skýrsla er áætlað að liggi fyrir í næstu viku þannig að það verði reynt af hálfu stjórnvalda að gera á því óháða úttekt hvernig þessar reglur og vinnuferli líta út, m.a. að tryggja að byggt sé þar á bestu þekktri aðferðafræði og fáanlegri reynslu.

Í framhaldinu verður að sjálfsögðu farið yfir þetta og yfir skýrslurnar í bönkunum og þeim gert, eftir því sem ástæða er þá til, að aðlaga vinnuferla sína í þessum efnum. Í stuttu máli má segja að meðferð mála hvað varðar fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum sé mjög svipuð í grundvallaratriðum. Skipulag bankanna sjálfra er þó auðvitað eitthvað mismunandi og getur verið blæbrigðamunur á því hvernig þeir standa að málum, t.d. í hvaða mæli þeir virkja sín eignaumsýslufélög sem þeir hafa stofnað til að leysa úr slíkum málum eða að hve miklu leyti þeir vinna það af hálfu bankans sjálfs.

Ég vil líka bæta því við að innan fjármálaráðuneytisins er verið að vinna að frágangi á bæði eigenda- og eignarhaldsstefnu. Því máli mun verða lent innan skamms, þ.e. þær reglur verða ákvarðaðar og endanleg stefna tekin um það hvernig farið verður með þetta vandasama hlutverk af hálfu eigandans, bæði hvað varðar eignarhaldið sjálft eða eignarhaldsformið og síðan eigendastefnuna, hvaða stefnu og markmið eigandinn hefur varðandi þessi fyrirtæki sín. Þá verður væntanlega ekki síst horft til þeirra reglna sem um þetta gilda í Noregi þar sem þróuð hefur verið mjög vönduð eigendastefna sem gæti í þessu tilviki að hluta til orðið almenns eðlis og tekið til allra fyrirtækja ríkisins þar sem kveðið verður á um gagnsæi, upplýsingagjöf og fagleg vinnubrögð, auglýsingar á störfum og annað í þeim dúr og síðan sértækt gagnvart bönkum og fjármálastofnunum sem ríkið á eða er meðeigandi í. (Forseti hringir.) Þá yrði sérstök eigendastefna og eignarhaldsstefna í gildi gagnvart þeim.