137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

meðferð ríkisbanka á fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum.

[14:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við Íslendingar stöndum frammi því stóra verkefni að endurreisa efnahags landsins. Við það starf er þörf á hugrökku fólki sem þorir að taka ákvarðanir. Þrátt fyrir að staðan sé erfið má ekki fórna grunngildum hins frjálsa markaðar og því verður að velja leiðir sem efla samkeppni eða hamla samkeppni sem minnst.

Ríkisvæðing atvinnulífsins er þegar hafin en tryggja þarf að sú ríkisvæðing sé ekki til langframa. Hagsmunir ríkisins til lengri tíma felast í því að hér þrífist sterkt og öflugt atvinnulíf. Þannig tryggjum við atvinnu, þannig tryggjum við afkomu heimilanna, betri afkomu ríkissjóðs og betri afkomu bankanna.

Virðulegi forseti. Við sem sitjum Alþingi Íslendinga eru vonandi öll sammála um þau meginsjónarmið að gagnsæi og jafnvægi skuli ráða ríkjum í meðferð ríkisbankanna á fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum og að tryggt verði að samkeppni raskist ekki. Besta leiðin hlýtur að vera sú að komast út úr því óvissu- og millibilsástandi sem nú ríkir með því að ljúka endurreisn bankanna. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvað líður endurreisn bankanna? Hvenær er þess að vænta að þeirri vinnu verði lokið? Getum við fengið fram dagsetningar?

Í kjölfarið hljótum við að huga að því að losa um eignarhald ríkisins á bönkunum og hefja söluferli þeirra. Þannig losnum við við ríkisafskipti, pólitískar ráðningar og íhlutun stjórnmálamanna í málefni bankanna. (Gripið fram í.) Hvenær sér hæstv. fjármálaráðherra fyrir sér að breytingar verði á eignarhaldi bankanna?

Það er mikilvægt er að hönd ríkisins taki viðskiptalífið ekki slíkum heljartaki að um það verði ekki losað. Mikilvægt er að einkaframtakið verði ekki drepið niður vegna óeðlilegrar samkeppni frá fyrirtækjum í ríkisrekstri. Endurreisn bankanna og sala þeirra að nýju er forgangsverkefni. Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að upplýsa okkur um hvaða stefnu ríkisstjórnin hefur í þessum málum.