137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

meðferð ríkisbanka á fyrirtækjum í greiðsluerfiðleikum.

[15:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég get vel tekið undir það að við gætum alveg notað lengri tíma í að ræða þetta stóra og mikla mál. Hér var spurt um hvað líði vinnunni að efnahagsreikningi og endurfjármögnun nýju bankanna sem vel að merkja eru auðvitað starfandi að fullu og að gera sitt besta við erfiðar aðstæður. Svarið er það að menn ætla sér júnímánuð til að ljúka þeim viðræðum. Samningaviðræðum og samskiptum milli aðila sem nú eru í gangi hafa verið sett endanlega tímamörk, að því ferli ljúki í lok júnímánaðar.

Varðandi eignaumsýslufélag bankanna annars vegar og það sem menn hafa þar með höndum og áform sem liggja nú fyrir þinginu um að stofna eignaumsýslufélag ríkisins, get ég sagt það í örugglega tuttugasta sinn hér, ef hv. frummælanda líður betur: Það eru engin áform um það af hálfu ríkisstjórnarinnar og ekki nokkurs aðila að ég veit að taka inn í eignaumsýslufélag á vegum ríkisins önnur verkefni en þau sem nauðsynlegt reynist að þangað fari og sem reynast betur komin þar en í höndum bankanna sjálfra.

Það væri að sjálfsögðu best ef bankarnir reyndust færir um að leysa úr öllum þessum málum sjálfir. Ég held að það sé almennt viðurkennt að það væri besta fyrirkomulagið. Það er sjálfsagt mál að ræða hér verklag og form en við skulum passa okkur á því að gleyma ekki mikilvægi verkefnisins sjálfs, sem er alveg óendanlega mikilvægt fyrir okkur, og það er að vel takist að greiða úr vanda íslenskra fyrirtækja, allra lífvænlegra raunverulegra rekstrarfyrirtækja þar sem raunveruleg starfsemi og raunveruleg verðmætasköpun á sér stað. Það er gríðarlega afdrifaríkt og mikilvægt verkefni fyrir okkur öll vegna atvinnu- og verðmætasköpunar í landinu. Lítil og meðalstór fyrirtæki mega ekki gleymast í þeim efnum þó að orkan fari oft mikið í stóru dæmin.

Það er mikill skortur á ýmsu á Íslandi um þessar mundir en kannski engu eins og trausti. Og það er rétt sem hér er sagt að það er fáu treyst um þessar mundir, enda eru menn illa brenndir. En ég vil þó spyrja: Er ekki rétt að leyfa nýju bönkunum að (Forseti hringir.) njóta vafans og því fólki sem þar er við erfiðar aðstæður að reyna að glíma við geysilega erfið (Forseti hringir.) verkefni sem snúa að bágri stöðu bæði fyrirtækja og heimila?