137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[15:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er lokið fundi formanna þingflokka ásamt forseta þingsins með hæstv. fjármálaráðherra. Að sjálfsögðu ríkir trúnaður um ýmislegt sem þar fór fram en þó er sú niðurstaða að það verður ekki tekin fyrir sérstök umræða um stöðuna í Icesave-málinu eins og var beiðni stjórnarandstöðunnar.

Staðan er sú að stjórnarandstaðan er bundin trúnaði um þær upplýsingar sem henni voru veittar hér í morgun þó að við teljum reyndar að það hafi engan veginn nægar upplýsingar komið fram til þess að við getum myndað okkur nokkra afstöðu til þeirra atburða sem nú eiga sér stað sem hafa jafnmikið vægi fyrir íslenska þjóð til langs tíma, ef fram gengur. Við höfum þess vegna viljað eiga möguleika á að eiga hér umræður í þingsalnum um þetta mikilvæga mál og teljum með öllu ófært að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra, geti tjáð sig um þessi mál á opinberum vettvangi á meðan stjórnarandstaðan er bundin. (Forseti hringir.) Það er óeðlilegt.