137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[15:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að halda áfram að upplýsa þingheim með því að lesa upp úr mbl.is. Á þeim vef klukkan 15.07 er frétt þess efnis að Steingrímur fái fullt umboð og að það hafi verið ákveðið á ríkisstjórnarfundi þannig að við vitum það þá, þingheimur góður.

Hér stendur, með leyfi forseta, haft eftir hæstv. forsætisráðherra:

„Vonir standi þó til að þetta verði undirritað fljótlega með fyrirvara um samþykki Alþingis.“

Ég vil því ítreka spurningu okkar þingmanna frá því í morgun, virðulegur forseti, sem hæstv. fjármálaráðherra sá sér ekki fært að svara þegar hann þó heiðraði okkur hér með nærveru sinni: Mun þingheimi gefast tækifæri og kostur til að ræða þetta mikilvæga mál áður en samningurinn verður undirritaður?

Þetta er spurning sem ég tel að við þingmenn höfum rétt á að fá svar við vegna þess að það er til einskis að boða hér (Forseti hringir.) umræður um þetta mikilvæga mál eftir að skaðinn er skeður.