137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[15:55]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Nú hefur það verið upplýst að hæstv. fjármálaráðherra hefur fengið umboð ríkisstjórnarinnar til að ganga frá þessu svokallaða Icesave-máli, væntanlega á grundvelli þeirra upplýsinga sem við fengum afar lauslegar á þingflokksfundum í morgun. Gagnvart okkur ríkir afar mikill trúnaður þótt svo sé ekki þegar hæstv. forsætisráðherra fer mikinn í fjölmiðlum.

Það er algjörlega gagnslaust, frú forseti, að ætla að boða hér til umræðna um Icesave eftir að undirskrift hefur farið fram. Það var algjörlega ófært að fá hæstv. fjármálaráðherra til að segja frá því hér áðan hvenær til stæði að skrifa undir. Það gæti þess vegna orðið bara mjög fljótlega. Það hefur enga þýðingu fyrir þingið að bjóða þinginu upp á það, frú forseti, að ræða þetta þegar það er um garð gengið. Það er til háborinnar skammar fyrir Alþingi og á bara ekki að líðast. Frú forseti verður að beita sér fyrir því að svo verði ekki og þetta mál verði tekið á dagskrá nú strax í dag. (Forseti hringir.) Vilji stórs hluta þingmanna liggur hér fyrir, virðulegi (Forseti hringir.) forseti, enda er hún kjörin af okkur öllum til hennar starfa. (Gripið fram í: Nákvæmlega.)