137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[15:59]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Rétt til að draga fram það sem kom fram á fundinum áðan með hæstv. fjármálaráðherra þá tilkynnti hann þar að hann mundi við fyrsta tækifæri mögulega, strax og hægt væri, kynna þinginu skýrslu um gang mála, að nefndirnar sem nú væru að ræða saman hefðu umboð til að ná saman drögum sem þær mundu kynna sínum stjórnvöldum, að nefndin hefði umboð fjármálaráðherra til að halda áfram. Hvernig því reiddi af ætti eftir að koma í ljós og fyrr gæti hann ekki gefið þinginu skýrslu um málið. Það var afdráttarlaus vilji ráðherrans að kynna þinginu niðurstöðu um leið og hægt væri, fyrr gæti hann ekki gert það. Það var alveg afdráttarlaust. Það á að ræða málið hér í þinginu um leið og hægt er, um leið og nefndirnar hafa komið sér saman um einhver drög til að kynna, þannig að því sé til haga haldið að ráðherra fjármála var ekki að víkja sér undan því að ræða málið hér og kynna það fyrir þinginu um leið og þess væri kostur og gaf hann þess vegna upp með það að (Forseti hringir.) ræða það hér á kvöldfundi ef það væri vilji manna, ef það lægi fyrir þá.