137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:01]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég ítreka fyrri beiðnir sem hafa komið fram um það að forseti beiti sér fyrir því að veita þinginu upplýsingar um hvort skrifa eigi undir Icesave-samkomulag á næstu dögum, í dag eða á næstu 24 klukkustundum. Ég hvet líka frú forseta til að beita sér fyrir því að það verði kynnt fyrir þinginu á viðeigandi máta hvað er í gangi, að við fáum einhverjar upplýsingar.

Það hefur aðeins verið lesið úr fréttum sem hafa komið fram í dag en mig langar til að lesa setningu sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði í tilefni þess að við vorum að ræða Icesave síðast, um þetta samkomulag sem hann sá fyrir sér þá, með leyfi forseta:

„Það er dapurlegt til þess að hugsa að ríkisstjórnin skuli hafa látið beygja sig í þessu máli og ég þakka fyrir að sú ríkisstjórn sem nú situr skuli ekki hafa verið í forsvari fyrir þjóðina þegar við háðum fiskveiðideilurnar við Breta og aðrar þjóðir á sínum tíma, (Forseti hringir.) hún hefði lyppast niður á fyrsta eða öðrum degi.“