137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:02]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti. Sem nýliði á þingi er ég alveg rasandi hissa á þeim vinnubrögðum sem hafa viðgengist í dag og vinnubrögðum framkvæmdarvaldsins á Íslandi gagnvart almenningi og gagnvart þinginu. Ég sætti mig ekki við svona vinnubrögð. Það er verið að skuldbinda þjóðina upp á hundruð milljarða áratugi fram í tímann án þess að hún sé upplýst um það. Þingið er ekki upplýst um það fyrir fram með hvaða hætti þetta verður. Þetta heitir að starfa í reykfylltum bakherbergjum, frú forseti. Borgarahreyfingin kom ekki inn á þing til að taka þátt í því. Því mun ég fara úr þingsal á eftir og ég mun upplýsa mitt bakland um allt það sem ég hef orðið var við á þinginu í dag, hvers konar vinnubrögð líðast hér, hvers konar stofnun þetta er og hvers konar vanvirðingu þingið og framkvæmdarvaldið sýnir almenningi í landinu. Þetta er algerlega ótækt. Ég skammast mín fyrir að vera þingmaður á þingi sem hegðar sér með þessum hætti. (Forseti hringir.) Og meiri hluti þingmanna sem styður þessa ríkisstjórn ætti að taka til alvarlegrar athugunar hvers konar vinnubrögðum hann er að taka þátt í.