137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:06]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að Icesave-deilan þýðir það að við erum að taka á okkur gígantískar upphæðir í skuldbindingar sem ætlast er til að almenningur borgi. Í morgun fengu allir stjórnmálaflokkarnir upplýsingar í trúnaði en hæstv. forsætisráðherra braut trúnaðinn í fjölmiðlum. Núna átta menn sig ekki alveg á stöðunni. Ríkir trúnaður enn þá og um hvað er sá trúnaður? Er það rétt að það sé yfirvofandi að skrifa eigi undir samning um þetta mál núna á næstunni? Er það rétt eða ekki? Er það rétt að ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu, Indriði Þorláksson, eigi að skrifa undir samning eða er það úr lausu lofti gripið? Það eru þær upplýsingar sem ég hef fengið, að ef einhver skrifar undir væri það væntanlega hann, með fyrirvara um samþykki Alþingis. Er það rétt eða er það einhver annar?

Ég tel, hæstv. forseti, að það eigi að slíta (Forseti hringir.) þessum fundi og það eigi að kalla saman utanríkismálanefnd og hún fari yfir það hvað eigi að vera í trúnaði og hvað ekki og fari yfir það hvernig málin standa. Það er ekki hægt að halda svona áfram, (Forseti hringir.) það verður að kalla saman utanríkismálanefnd sem fyrst.