137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:08]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það litla sem hefur komið fram af hálfu stjórnarflokkanna í þeirri umræðu sem hefur farið fram hér í dag gefur eiginlega frekar tilefni til að spyrja fleiri spurninga en það hefur svarað nokkrum af þeim spurningum sem varpað hefur verið fram. Mér finnst margt í þessu máli mjög óljóst. Mér finnst, miðað við það sem hefur komið fram hér í umræðum, óljóst hvaða umboð það var raunverulega sem fjármálaráðherra var falið á ríkisstjórnarfundi í hádeginu. Hugsanlega gæti hæstv. viðskiptaráðherra sem sat þann fund, vænti ég, upplýst okkur um það í þessari umræðu: Hvers eðlis var það umboð sem ríkisstjórnin samþykkti til fjármálaráðherra? Ég skildi það svo af fréttum að það væri umboð til að undirrita samkomulag. Svo heyri ég í hv. formanni þingflokks Samfylkingarinnar sem er enn að tala um einhver drög, einhver samkomulagsdrög, óljós drög sem eigi að kynna fyrir þinginu og eitthvað þess háttar. Þannig að þegar talað er á vettvangi ríkisstjórnarinnar virðist málið miklu lengra komið en þegar hv. formaður þingflokks Samfylkingarinnar talar um það.

Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort (Forseti hringir.) forseti geti skýrt fyrir okkur afstöðu sína í því hvers vegna hæstv. forseti sjálf tekur ekki þá ákvörðun að (Forseti hringir.) efna til þeirrar utandagskrárumræðu sem hér hefur ítrekað verið beðið um.