137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:11]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Það sem hefur komið fram frá því í morgun þegar þingflokkarnir fengu þessa lauslegu útgáfu af því hvað fram undan væri í Icesave-málinu hefur einungis verið til þess að gera málið ruglingslegra. Í rauninni er það svo að það er miklu brýnna nú en áður að þetta mál komi á dagskrá strax í dag svo hægt sé að ræða það.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom fram með skýringar sem eru af allt öðrum toga en þær sem hæstv. fjármálaráðherra reyndi með einhverjum hætti að koma til skila fyrr í dag. Reyndar er það svo að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar láta sig þessa umræðu litlu varða, það er eins og sú skuldbinding sem fram undan er skipti ekki svo miklu máli að það sé ástæða til vera í þingsalnum til að ræða það. Þetta kemur mér afar mikið á óvart.

Ég verð líka að segja það, frú forseti, að hér fer stór meiri hluti þingmanna fram á það að forseti fresti fundi (Forseti hringir.) og setji á dagskrá utandagskrárumræðu og það kemur mér afskaplega mikið á óvart að sá forseti sem situr í stólnum núna skuli ekki verða við því.