137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Bara til að setja þetta í eitthvert samhengi þá höfum við ekki átt í stærri málum, Íslendingar, hvað varðar okkar hagsmuni síðan í landhelgisdeilunni. Við höfum ekkert átt í neinum stærri málum. Það er alveg ótrúlegt, virðulegi forseti, að sjá að það virðist vera algjör sátt meðal stjórnarliða að vinna hér eins og verið er að gera, virðulegi forseti.

Ég hvet stjórnarliðana sem hafa nú í stjórnarandstöðu sumir fyrir nokkrum vikum síðan verið með stór orð um að það þurfi að iðka lýðræðisleg vinnubrögð, gegnsæja stjórnarhætti og svo framvegis — ég hvet þá aðeins til að hugsa sitt mál áður en þeir leggja blessun sína yfir framgang málsins eins og það er núna. Málin verða ekki stærri og ætlast virðulegur forseti (Forseti hringir.) til þess að núna þegar þessi mál eru á fleygiferð í fjölmiðlum — ekki í þingsölum — að við ræðum um lög um vátryggingarsamninga?