137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla þeim ótrúlegu orðum hæstv. félagsmálaráðherra áðan, að það sé verið að vinna þetta í einhverri sátt. (Gripið fram í: Í friði og sátt.) Í friði og sátt. Það er dónaskapur við stjórnarandstöðuna að halda þessu fram, hæstv. ráðherra.

Í ræðu hv. þingflokksformanns Samfylkingarinnar áðan kom fram að það ætti að ræða málið þegar eitthvað væri að kynna, að fjármálaráðherra ætlaði að upplýsa okkur þegar eitthvað væri að kynna. Ég held að það sé heldur betur eitthvað að kynna í dag. Í fjölmiðlum er forsætisráðherra að tjá sig um einstök efnisatriði í hugsanlegu samkomulagi. Verið er að tala um innstæðutryggingarsjóð sem gefi út skuldabréf, það er verið að tala um 90% af eignasafni, það er verið að tala um ríkisábyrgð. Um hvað megum við ekki tala? Hvenær ætlar ríkisstjórnin að aflétta því þagnarbindindi sem hún setti á stjórnarandstöðuna? Þetta er með ólíkindum.