137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þá fengum við lýsingu á því hvernig samráð fer fram, virðulegi forseti, þá vitum við það. Þetta er samráð Samfylkingarinnar. Það gengur út á það að það kemur gestur inn á fund, spjallar í tíu mínútur og segir: Þið verðið að lofa að segja engum frá neinu. Þetta er sátt og samlyndi og samráð. Það liggur fyrir.

Virðulegi forseti. Þessi vinnubrögð segja okkur það að allur fagurgalinn var nákvæmlega ekkert annað en fagurgali. Þetta eru vinnubrögðin sem á að praktísera. Ef þessar fregnir í fjölmiðlum eru réttar virðist Samfylkingin gera fleira en að iðka … (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Það er gott að hæstv. félagsmálaráðherra er ekkert pirraður yfir þessari ræðu. En það er augljóst að þeir eru að gera fleira ef eitthvað er að marka þessar fregnir í fjölmiðlum því að væntanlega eru þeir að hjálpa systurflokki sínum (Forseti hringir.) í Bretlandi, verkamannaflokknum þar, og Gordon Brown (Forseti hringir.) rétt fyrir kosningar því að þannig líta þessi samningsdrög út ef eitthvað er að marka fjölmiðla.