137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

umræða um Icesave.

[16:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég fagna því að komin er tímasetning á fund í utanríkismálanefnd og að nefndin geti og fái þá greinargóðar upplýsingar um þá atburði sem hafa átt sér stað í dag þannig að hægt sé að leggja mat á þá stöðu sem upp er komin.

Það er rétt að taka það fram vegna ummæla hæstv. félagsmálaráðherra að það var einmitt þannig að ríkisstjórnin kom til þingsins og fékk sérstakt umboð frá þinginu, sem er óvanalegt í þessari stöðu, um það að ganga til þessara samningaviðræðna og að leiða þær áfram til lykta en þó þannig að þinginu væri gerð full grein fyrir stöðu mála. Gerð var tilraun til þess að gera einhverja grein fyrir málinu hér í dag, engan veginn fullnægjandi, engan veginn þannig að hægt væri að líta svo á að haft væri eitthvert samráð eða að þinginu væri haldið upplýstu. Það voru einfaldlega ekki gefnar nægilegar upplýsingar til þess.

Á sama tíma og stjórnarandstaðan er sett undir þagnarbindindi kemur hæstv. forsætisráðherra fram í fjölmiðlum í hádeginu og lýsir því yfir að hér sé um að ræða mjög góðan samning og mjög góða niðurstöðu sem sé að nást. (Forseti hringir.) Það er það sem er algjörlega óþolandi að sitja undir og sitja hér sjálf í þagnarbindindi. (Forseti hringir.) Þessu verðum við að breyta.