137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

umboð samninganefndar í Icesave-deilunni.

[15:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er eitt atriði sem mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í og það varðar það stóra mál sem við ætlum að ræða á eftir, svokallað Icesave-mál. Mig langar að spyrja og velta aðeins upp við hæstv. fjármálaráðherra hvert umboð samninganefndarinnar hafi í raun verið. Þá er ég að velta fyrir mér hversu langt þessi samninganefnd mátti ganga, hvað hún mátti skuldbinda þjóðina fyrir miklu í viðræðum sínum og slíkt. Það væri mjög freistandi og ekki bara freistandi, það væri mjög gott og mikilvægt, held ég, ef ráðherra mundi beita sér fyrir því að Alþingi fengi að sjá umboðið sem þessi nefnd fékk. Hún hefur væntanlega fengið skriflegt umboð og ég óska eftir því að fá að sjá það umboð og mælist til þess að ráðherra beiti sér fyrir því að þingið sjái það til að það liggi alveg fyrir hvert umboðið var, hvað þessi ágæta nefnd mátti gera og hvað ekki.