137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í virkjanamálum.

[15:16]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður á kannski við og það sem vakið hefur ugg hjá henni er að við erum í raun að horfa á tvíþætt atriði sem snýr að orkufyrirtækjunum. Annars vegar hvernig fjármagna á nýframkvæmdir og hins vegar hvernig endurfjármagna á þau lán sem fyrirtækin hafa tekið fyrir eldri framkvæmdum.

Ég nefndi hér hvaða möguleika við höfum varðandi fjármögnun til nýframkvæmda þannig að af þessum nýju verkefnum megi verða.

Ég ætla líka að nefna það hér og þakka tækifærið til þess að fá að ræða það að ríkisstjórnin hefur lýst vilja sínum til að fá hingað til lands öfluga erlenda fjárfesta. Það hef ég áður sagt og við það stend ég. Það eru fjölmörg slík verkefni á borði iðnaðarráðuneytisins núna, möguleikar sem eiga að (Forseti hringir.) geta knúið hagvöxt inn í framtíðina og ég vona svo sannarlega að við eigum eftir að fá margar og góðar fréttir í sumar af slíkum verkefnum.