137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

rannsókn sérstaks saksóknara á bankahruninu.

[15:17]
Horfa

Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg):

Frú forseti. Eftir þær efnahagshörmungar sem á íslensku þjóðinni hafa dunið er það gríðarlegt réttlætismál fyrir alla Íslendinga að þeir einstaklingar og/eða lögaðilar sem bera ábyrgð á bankahruninu fái viðeigandi meðferð innan réttarvörslukerfisins.

Sitjandi ríkisstjórn hefur eflt embætti sérstaks saksóknara í samræmi við ráðleggingar Evu Joly. Þannig hefur embættinu bæði verið veitt aukið fjármagn og valdheimildir embættisins í þágu rannsóknar hafa verið auknar.

Nýverið hafa komið fram fregnir af því að gerðar hafa verið húsleitir á heimilum og í fyrirtækjum þessu tengt. Í ljósi þessa langar mig til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hún telji embætti sérstaks saksóknara nú vera nægilega burðugt til að takast á við rannsókn bankahrunsins bæði hvað varðar fjármagn og valdheimildir.

Það er gríðarlega mikilvægt að unnið sé eftir ráðleggingum Evu Joly þar sem hún ein hefur reynslu af rannsókn sakamála af þessari stærðargráðu hjá embætti sérstaks saksóknara.

Því spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra einnig hvernig samstarf embættis sérstaks saksóknara og Evu Joly gengur og hvort verið sé að vinna í samræmi við ráðleggingar hennar. Í ljósi þess að nokkrum aðilum hefur verið veitt réttarstaða grunaðra í tengslum við rannsókn bankahrunsins langar mig að lokum til að spyrja hvort hæstv. dómsmálaráðherra sé kunnugt um að eignir þeirra hafi verið kyrrsettar.