137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

rannsókn sérstaks saksóknara á bankahruninu.

[15:19]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Ég þakka fyrirspurnina. Embætti sérstaks saksóknara er sjálfstætt og hefur sínar eigin heimildir. Það svarar fyrir verk sín aðallega til ríkissaksóknara en ekki til ráðherra.

En ég tel mig þó geta svarað spurningum sem varða aðbúnað að embættinu og hvort það sé nægilega öflugt. Ég tel að það verði að vera til sífelldrar skoðunar hvort það hafi nægilegar valdheimildir til að starfa eftir. Því hefur verið fundur með sérstökum saksóknara og embættismönnum ráðuneytisins um hvort eitthvað skorti á valdheimildir til þess að embættið geti sinnt sínu hlutverki. Niðurstaðan var sú að það lítur ekki út fyrir að vera þannig. Hins vegar held ég að það verði að taka til nákvæmrar skoðunar hvernig valdheimildum og íslenskri löggjöf er háttað í þessum efnum. Komið hafa tilmæli frá alþjóðlegum stofnunum sem ég held að við verðum að skoða. Það getur komið til þess að við þurfum að laga löggjöf okkar og ég held að við eigum að vera óhrædd við það.

Hvernig er samstarfi embættisins við Evu Joly háttað? Ég get haft milligöngu um að afla upplýsinga frá sérstökum saksóknara um það en sem dómsmálaráðherra er ég ekki inni í því vinnusambandi. En ég hef ekki heyrt annað en að það gangi vel. Það var fundur hér fyrir tveimur vikum, að ég held, og ég tel mig hafa heimildir fyrir því að Eva Joly sé væntanleg til landsins í þessari viku. Ég held því að samstarfið gangi ágætlega fyrir sig.

Hvað varðar aðbúnað að embættinu tel ég að hugleiða megi hvort efla megi það enn frekar, hvort bæta eigi þar við saksóknurum sem starfi þá saman að rannsókninni (Forseti hringir.) undir umsjón hins sérstaka saksóknara.