137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

efling erlendra fjárfestinga á Íslandi.

[15:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fram kom áðan í orðum hæstv. iðnaðarráðherra að hún ætti von (Gripið fram í.) á miklum erlendum fjárfestingum hér á landi von bráðar. Hæstv. ráðherra sagðist vonast til þess og ég tek svo sannarlega undir þau orð að ég vonast til að svo verði.

Það er alveg ljóst að íslenska þjóðin þarf á því að halda að efla atvinnutækifæri sín og þá starfsemi sem skapar gjaldeyri, ekki síst ef við ætlum að taka á okkur alveg ótrúlegar ábyrgðir og greiðslur vegna Icesave, veitir okkur nú ekki af því að hafa gjaldeyri til að standa undir slíku.

En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi einhver áform uppi og þá hver þau eru til að efla þá starfsemi sem lýtur að því að ná hingað erlendum fjárfestum. Við höfum stofnanir sem hafa það hlutverk að krækja í erlendar fjárfestingar og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún muni beita sér fyrir því að efla þá starfsemi.