137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

efling erlendra fjárfestinga á Íslandi.

[15:27]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að auðvitað skiptir máli að efla þá þjónustu sem þarna um ræðir. Og það er svo sannarlega á teikniborði þessarar ríkisstjórnar, eins og fram kemur í stjórnarsáttmála, að setja á laggirnar svokallaða Íslandsstofu sem mun hafa það verkefni með höndum að kynna Ísland sem fjárfestingarkost erlendis ásamt því að fara með fleiri verkefni sem heyra nú undir Útflutningsráð og að hluta til undir Ferðamálastofu og fleiri aðila.

Þetta verður algjörlega ný stofnun sem mun hafa það verkefni að kynna Ísland frá öllum hliðum út á við og þar á meðal sem fjárfestingarkost. Það er von mín að með samlegðaráhrifum og öflugri Íslandsstofu takist okkur það og við náum að efla þessa deild enn frekar.

Ég verð að segja varðandi Fjárfestingarstofu að það er alveg með ólíkindum hvað þessir þrír starfsmenn ná gríðarlega miklum (Forseti hringir.) árangri og er það til mikillar fyrirmyndar.