137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

Icesave-samningarnir, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[15:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að fá tækifæri til að gera Alþingi grein fyrir því með munnlegri skýrslu hverjar niðurstöður urðu í viðræðum íslenskra, hollenskra og breskra samninganefndarmanna nú fyrir helgina í svonefndu Icesave-máli.

Það er vandasamt að velja upphafspunkt þessa máls, hvort á að byrja á Alþingi 21. desember 1999 þegar Alþingi ákvað innleiðingu tilskipunar ESB um innlánstryggingar, hvort á að byrja 2002 þegar Landsbankinn og reyndar líka Búnaðarbankinn voru einkavæddir með þeim aðferðum sem þá voru notaðar og í hönd fór sá mikli ofvöxtur í bankakerfinu í samkrulli við skuldsetta útrás viðskiptajöfra sem eru að reynast Íslandi einhver ógæfulegasti leiðangur sögu sinnar, hvort á að byrja 2006, 10. október það ár, þegar Icesave-reikningarnir voru kynntir til sögunnar með pompi og prakt í Bretlandi. Það var gert þannig að þó að Landsbankinn ætti þá dótturfyrirtæki, banka í því landi, var engu að síður valið að opna reikningana í útibúum Landsbankans í Bretlandi og síðar í Hollandi. Í október 2007, ári síðar, var fjöldi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi einu orðinn 105 þúsund talsins. Þessir reikningar hlóðu upp á sig miklum fjárhæðum og allt var þetta með starfsleyfum og undir eftirliti frá Fjármálaeftirlitinu íslenska og reyndar einnig að nokkru leyti hinu breska og síðar hollenska. Í maí, svo seint sem í maí 2008 opnar Landsbankinn Icesave-reikninga í Hollandi og entist aldur til að safna á annað hundrað þúsund viðskiptavinum áður en hann féll.

Á árunum 2006–2007 fór að bera á því að íslenskir bankar ættu í vaxandi erfiðleikum með að endurfjármagna sig og opnun þessara reikninga er að sjálfsögðu í beinu samhengi við það. Þarna var fundin auðveld en ákaflega áhættusöm leið til að ná í lausafé með því að yfirbjóða með háum vöxtum á þeim mörkuðum sem við áttu. Einhverjir kölluðu þetta tæra snilld.

Við fall gamla Landsbankans lokuðust inneignir 340 þúsund sparifjáreigenda inni í útibúum bankans í Bretlandi og Hollandi. Heildarupphæð þessara innstæðna nam jafnvirði rúmlega 1.200 milljarða íslenskra króna, 1.200 milljarða, og Tryggingarsjóði innstæðueigenda ber samkvæmt viðkomandi tilskipun að tryggja að lágmarki verðmæti innstæðna upp að 20.887 evrum. Á Ísland falla með þessum hætti reiknað um 640–660 milljarðar kr. Afganginn hafa Bretar og Hollendingar borgað eða u.þ.b. helming upphæðarinnar.

Strax í október 2008 samþykktu íslensk stjórnvöld í aðalatriðum ábyrgð á þessum reikningum og að ríkissjóður tæki lán til að greiða þetta upp eða ábyrgðist lán til hins sama. 11. október kom út fréttatilkynning frá forsætisráðuneytinu um samkomulag milli Hollands og Íslands um Icesave. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að loknum uppbyggilegum viðræðum hafa hollensk og íslensk stjórnvöld náð samkomulagi um lausn mála hollenskra eigenda innstæðna á Icesave-reikningum Landsbankans.

Fjármálaráðherra Hollands, Wouter J. Bos, og fjármálaráðherra Íslands, Árni M. Mathiesen, tilkynntu þetta.

Ráðherrarnir fagna því að lausn hafi fundist á málinu. Wouter J. Bos kvaðst einkum ánægður með að staða hollenskra innstæðueigenda væri nú skýr. Árni M. Mathiesen bætti við að aðalatriðið væri að málið væri nú leyst.

Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur. Hollenska ríkisstjórnin mun veita Íslandi lán til að standa undir þessum greiðslum og hollenski seðlabankinn mun annast afgreiðslu krafna innstæðueigendanna.“

Það sem var hins vegar ekki sagt í þessari fréttatilkynningu var að hér var um meira en niðurstöðu fundar að ræða. Hér var um skriflegt samkomulag íslenskra og hollenskra stjórnvalda að ræða, undirritað „Memorandum of Understanding“ af til þess bærum æðstu embættismönnum með samþykki sinna ráðherra. Og það var heldur ekki sagt í þessari fréttatilkynningu að kjörin voru þau að lánið skyldi aðeins vera til 10 ára afborgunarlaust en með fullum vöxtum fyrstu þrjú árin upp á 6,7%. Þessi draugur hefur fylgt okkur æ síðan og í annarri fréttatilkynningu sem kom út sama dag má ráða að sambærileg lending var í vændum gagnvart Bretum. En í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu nefndan dag segir að fulltrúar Íslands og Bretlands hafi átt vinsamlegan fund í Reykjavík til að ræða sameiginleg hagsmunamál o.s.frv. og: „Verulegur árangur náðist um meginatriði fyrirkomulags sem miðar að því að flýta fyrir greiðslum til sparifjáreigenda í Icesave.“

Í nóvember var síðan þetta enn betur innsiglað með því að samþykkt voru hin svokölluðu sameiginlegu viðmið og þar er aftur kveðið fast að orði af hálfu íslenskra stjórnvalda í fréttatilkynningu — að þessu sinni frá utanríkisráðuneytinu — þegar segir, með leyfi forseta:

„Samkomulag næst við Evrópusambandið fyrir hönd Hollendinga og Breta. Greiðir fyrir láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF).“

Og aftur í textanum:

„Samkomulagið felur í sér að íslensk stjórnvöld ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um til innstæðueigenda í útibúum bankanna erlendis. Endanlegur kostnaður ríkissjóðs vegna þessa mun ráðast af því hvað greiðist upp í innstæðutryggingar af eignum bankanna.“

Sem sagt ekki af hinu, að vafi léki á því að Ísland ætti að standa við innstæðutrygginguna að fullu. Þetta var svo innsiglað endanlega á Alþingi 4. desember þegar afgreidd var tillaga til þingsályktunar um að fela ríkisstjórn Íslands að leiða til lykta samningaviðræður á þeim forsendum sem þarna lágu þá þegar fyrir og þar segir, ósköp einfaldlega:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.“

Í athugasemdum við þingsályktunartillögu þessa svara stjórnvöld sér sjálf. Undir kaflafyrirsögninni Niðurstaða íslenskra stjórnvalda segir, með leyfi forseta:

„Með allt framangreint í huga er það mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni.“

Með öðrum orðum, frú forseti: Svona var staðan. Í þessum farvegi var þetta mál af hálfu fyrrverandi stjórnvalda þegar ný samninganefnd tók til starfa í febrúarmánuði sl. Það var í öllum aðalatriðum búið að ganga frá því hvernig Ísland skyldi gera þessi mál upp, ekki bara munnlega, ekki bara með fréttatilkynningum, ekki bara með niðurstöðum funda heldur með skriflegum hætti þar til bærra stjórnvalda.

Það var út úr þessum farvegi sem samninganefnd Íslands hófst handa um að reyna að koma málinu þannig að hægt væri að koma því í annan og hagstæðari farveg fyrir Ísland og það tókst. Það er enginn minnsti vafi á því að það samkomulag sem nú liggur fyrir er til mikilla muna hagstæðara fyrir Ísland en það hefði orðið ef gengið hefði verið frá málinu endanlega með þeim hætti sem stjórnvöld höfðu lagt upp og undirritað að hluta til. (Gripið fram í.) Nú er talað um lán til 15 ára, afborgunarlaust og án þess að vextir þurfi að greiðast fyrstu sjö árin Það felur í sér mikilvægt skjól fyrir íslenskt efnahagslíf í gegnum þá erfiðleika sem við nú stöndum frammi fyrir. Það skapar tíma til að hámarka verðmæti eigna Landsbankans og gera sem mest úr þeim og láta þær ganga jafnóðum til að lækka þennan reikning. Það er kostur að lánið er með föstum lágum vöxtum miðað við það sem í boði er (Gripið fram í.) við þessar aðstæður og það ver Ísland fyrir þeirri áhættu sem væri fólgin í því að taka lán á breytilegum vöxtum og þá óvissu sem því er samfara. (Gripið fram í: Er engin áhætta?) (Gripið fram í.) Lánið er með uppgreiðslurétti — og nú vil ég fá að hafa hérna orðið því að þið getið talað á eftir, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og komið þá hérna upp og biðjist afsökunar á ykkar hlut í þessu máli, geri ég ráð fyrir.

Lánið er hægt að greiða upp hvenær sem er án nokkurs kostnaðar þannig að bjóðist okkur hagstæðari lánskjör eða við viljum með öðrum hætti dreifa greiðslubyrðinni, lengja í henni getum við hvenær sem er gert það án nokkurs viðbótarkostnaðar þannig að við erum bæði varin af föstum vöxtum og getum nýtt okkur möguleikana á hagstæðri fjármögnun ef hún kann að að bjóðast. Það er óumdeilanlegt að borið saman við 10 ára lán með fullum vöxtum frá byrjun sem hefðu þýtt 40 milljarða kr. í vaxtagreiðslur strax á þessu ári þá er þetta til mikilla muna hagstæðari niðurstaða fyrir íslenskt þjóðarbú. (Gripið fram í.) En góð er hún ekki og það verður þetta mál aldrei. Það verður aldrei ánægjulegt að standa að niðurstöðu í þessu máli en ég fullyrði að núverandi stjórnvöld hafa fært það um langan veg til góðs frá því sem var þegar þau tóku við því og í þeim skilningi er niðurstaða og frammistaða íslensku samninganefndarinnar glæsileg. (Gripið fram í.) Hún er það í ljósi þeirrar aðstöðu sem henni var búin í málinu. Auðvitað geta menn hlaupið frá öllu því sem þeir bera ábyrgð á í þessu máli, undirrituðum hlutum, fréttatilkynningum, niðurstöðum funda, samskiptum við aðrar þjóðir, ef þeir svo kjósa. En það breytir ekki skjalfestum gögnum og þau munu koma fram í dagsljósið.

Ég vil taka það sérstaklega fram, forseti, að í þessum samningi er öryggisákvæði. Það vísar til hinna sameiginlegu viðmiða frá því í nóvember og þar segir að gerist það að greiðslu- og skuldastaða ríkisins versni frá því sem gert var ráð fyrir í nóvember þegar hún var tekin út af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eiga íslensk stjórnvöld rétt á því að óska eftir endurupptöku samningsins og breytinga á honum í samræmi við það sem áformað var, að lyktir þessa máls yrðu að vera á þeim forsendum að þær væru vel viðráðanlegar fyrir íslenskt þjóðarbú.

Ég, virðulegi forseti, tel að í ljósi alls sem skoðað er í þessu máli og þegar öll gögn þess liggja fyrir og þegar maður loksins hefur þau í höndum, eins og ég hef nú, sé það ljóst að það hefur tekist að lagfæra til mikilla muna þá niðurstöðu sem stefndi í að yrði í þessu máli. Það mun sagan sýna að hefur verið gert og ég held að þeir sem hafa þar lagt hönd á plóginn eigi þakkir skilið. Það hefur hvorki verið vinsælt né öfundsvert verk að reyna að bjarga þjóðarhagsmunum í þessu tilviki og verður sjálfsagt aldrei.

Það er mikilvægt að hafa það í huga að þessi niðurstaða felur í sér mikla kosti fyrir stöðu okkar eins og hún er nú. Í fyrsta lagi erum við varin fyrir öllum útgjöldum af þessu í sjö ár. Í öðru lagi hefur þetta engin áhrif á lánshæfismat ríkisins vegna þess að lántakinn (Gripið fram í.) er sjálfstæður aðili og ríkisábyrgðin verður fyrst virk að sjö árum liðnum. (Gripið fram í.) Í þriðja lagi hefur þetta ekki áhrif á gengi gjaldmiðilsins vegna þess að greiðslur inn á lánið á fyrstu sjö árunum koma alfarið af tekjum Landsbankans sem falla til í erlendri mynt á erlendri grund. Borið saman við hitt sem í vændum var þurfa menn væntanlega ekki að vera miklir hagfræðingar til að sjá að þessi niðurstaða er til mikilla muna betri en hin ósköpin, hefðum við setið uppi með þau. Við sem nú höfum fengið það erfiða hlutverk að gera hið besta úr þessu erfiða máli erum ekki sökudólgarnir hér. Ekki bjuggum við það til, ekki einkavæddum við Landsbankann, ekki sáum við um eftirlitið eða eftirlitsleysið á þeim tíma sem bankakerfið óx þjóðarbúi okkar yfir höfuð og ekki stýrðum við skútunni, a.m.k. ekki ég, í október þegar þetta hrundi og menn gerðu þá hluti sem ég hef greint frá hér að voru gerðir. (Gripið fram í.) Ég tel að núverandi stjórn hafi í samræmi við það sem hún lofaði, bæði í sinni fyrri stefnuyfirýsingu og aftur í þeirri sem nú liggur fyrir, að reyna að leiða þetta mál til lykta á þann besta mögulega hátt sem í boði væri fyrir Ísland, tekist það.

Hver var hinn kosturinn og er hinn kosturinn? Að hlaupa frá öllu sem íslensk stjórnvöld (Gripið fram í.) hafa skrifað undir (Gripið fram í.) og skuldbundið sig gagnvart — (Gripið fram í.) er það þá hinn kosturinn? — og setja þar með í uppnám að öllu öðru leyti allt það prógramm sem Ísland vinnur núna samkvæmt til að koma sínum málum á kjöl? Og hvert færi Ísland þá í samfélagi þjóðanna? Vilja menn aðeins velta því fyrir sér?

Að sjálfsögðu, virðulegi forseti, kemur þetta mál svo í frumvarpsformi fyrir Alþingi þar sem afla þarf heimildar fyrir ríkisábyrgðinni sem verður veitt frá og með 2016 eins og áður sagði. Þá munu mun ítarlegri gögn fylgja málinu, þar á meðal þýðing á aðalefnisatriðum samkomulagsins, og önnur skjöl eftir því sem þau verður þá hægt að gera öll opinber og ég treysti að geti orðið og það mun mörgum þykja fróðleg lesning, því að hér hef ég af vissum ástæðum sleppt að vitna til ýmissa hluta sem ég spái að á spjöldum sögunnar muni þykja allmerkilegir þegar þeir líta dagsins ljós. (Gripið fram í: Hann hefur eitthvað klikkað hjá þér, kompásinn.)