137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

Icesave-samningarnir, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég þekki þetta mál vel. Ég hef fylgst með því frá upphafi og það er í rauninni ástæðan fyrir því að ég fór að skipta mér af stjórnmálum. Mér var svo misboðið við að fylgjast með því hvernig ríkisstjórnin hélt á þessu máli og það var hæstv. fjármálaráðherra líka á sínum tíma.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt margt um þetta mál, bæði í þinginu og í greinum í blöðum. Allt sem hann hefur sagt um málið er þveröfugt við það sem hann heldur nú fram og maður veltir því fyrir sér: Hvað er að marka það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur haldið fram í gegnum tíðina? Hverjar eru hinar raunverulegu skoðanir hans? Segir hann kannski bara það sem hann telur henta best við aðstæður sínar hverju sinni?

Þetta mál hófst með beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslendingum. Ég hugsa að engin önnur þjóð, alla vega ekki Evrópuþjóð, hefði látið slíkt yfir sig ganga. Íslendingar höfðu ekki einu sinni fyrir því að mótmæla beitingu hryðjuverkalaganna. Ég veit ekki hvort þið hafið gert það enn, hæstv. utanríkisráðherra. Ég efast um það. (Gripið fram í.)

Íslendingar létu kúga sig í þessu máli. Það hefur nú komið fram þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar um að það yrði ekki gert. Í þessu máli hefur hvert klúðrið rekið annað. Það hefur alltaf legið fyrir hvað slíkt klúður mundi hafa í för með sér. Menn hafa séð næsta skref fyrir. Og núna, nú er komið að langstærsta klúðrinu, eða svo vitnað sé í hæstv. fjármálaráðherra í grein sem hann skrifaði aðeins viku áður en hann varð ráðherra:

„Í ljósi þessa er mesta örlagastundin í Icesave-málinu í raun enn eftir. Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki Tryggingarsjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn. Stjórnarseta Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er því að reynast þjóðinni dýrkeypt, …“

Hvað með stjórnarsetu Vinstri grænna og Samfylkingarinnar? Nú er verið að ganga frá þessum endahnúti, verið að taka á þjóðina skuldbindingar sem á henni voru ekki lentar. Þau miklu áföll sem yfir Íslendinga hafa riðið í efnahagsmálum eru stærri en nokkur önnur þjóð hefur þurft að glíma við frá heimskreppunni miklu. Það liggur fyrir. En þetta lendir ekki á þjóðinni af fullum þunga fyrr en frá þessu samkomulagi verður gengið.

Hæstv. fjármálaráðherra er margbúinn að vara við þessu samkomulagi. Hver er breytingin frá öllum þessum viðvörunum ráðherrans sem hér liggja fyrir? Hún hefur ekki komið fram. Er það vegna þess að verið er að þvinga okkur? Líklega, líklega hefur það einhver áhrif að Bretar eru að þvinga okkur og misbeita Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En þá þarf að það að koma fram og þá þarf hæstv. ráðherra líka að útskýra hvers vegna hann telur nú ásættanlegt að láta þvinga sig en taldi það fráleitt að íslenska þjóðin léti slíkt yfir sig ganga fram að þessu.

Rök stjórnarinnar fyrir þessu samkomulagi eru fyrir neðan allar hellur, ekki boðleg. Að halda því fram að það að taka á sig gríðarlegar skuldbindingar, skuldbindingar upp á hundruð milljarða króna í erlendri mynt muni styrkja gengi íslensku krónunnar er fráleitt. Ég veit ekki hvort er verra, að ríkisstjórnin haldi þetta í raun og við séum þá með ríkisstjórn við stjórnvölinn í verstu efnahagskrísu sem nokkur þjóð hefur staðið frammi fyrir frá því í heimskreppunni miklu, ríkisstjórn sem skilur ekki grunnatriði efnahagsmála, eða að ríkisstjórnin sé að blekkja viljandi, ljúga að fólki.

Hæstv. ráðherra blekkti þingið fyrir ekki svo mörgum dögum síðan þegar ég spurði hann að því hver staða þessa máls væri. Hann hélt því fram að formlegar samningaviðræður væru ekki einu sinni byrjaðar þrátt fyrir að ég spyrði ráðherrann þessarar spurningar vegna þess að fólk vissi það í þinginu að verið væri að ganga frá samkomulaginu.

Hæstv. ráðherra hefur haldið ýmsu fram um þetta mál. Ekkert af því fæst nú staðist. Hverju eigum við að trúa? Verðum við ekki a.m.k. að gera kröfu um það að fá þær upplýsingar sem ráðherrann byggir ákvörðun sína á? Við vitum á hverju Samfylkingin byggir afstöðu sína. Eins og ég nefndi áðan hef ég margreynt að koma að þessu máli á fyrri stigum. Þingmenn Samfylkingarinnar vildu ekki einu sinni hlusta á lagaleg rök í málinu. Þeir vildu ekki heyra lagaleg rök hvað þá að þeir leituðu eftir þeim sjálfir.

Erlendir lögmenn, eins og hæstv. utanríkisráðherra nefndi, hafa tjáð sig um þetta mál og fjöldi breskra og bandarískra lögmanna hefur lýst því yfir að lagaleg staða Íslendinga í málinu væri sterk, okkur bæri ekki lagaleg skylda til að greiða þetta. Svo ekki sé minnst á færustu lögmenn Íslands á þessu sviði. Þessu er litið fram hjá af einhverjum ástæðum sem þinginu hafa ekki verið kynntar og þjóðinni hafa ekki verið kynntar heldur.

Í þorskastríðunum vorum við að sækja á. Við fórum fram á meira en við höfðum í rauninni lagalegan rétt til. Hér hafa menn ekki einu sinni dug í sér til að verja þjóðina þegar hún hefur lagalegan rétt. Þetta er forkastanlegur aumingjaskapur, hæstv. fjármálaráðherra. Í þessu máli er verið að fórna efnahagslegri framtíð Íslands. Það að halda því fram að Ísland sé komið í skjól í sjö ár vegna þess að Ísland þurfi ekki að greiða af skuldabréfi fyrr en eftir sjö ár felur í sér einn meiri vanþekkingu á efnahagsmálum en það sem ég nefndi áðan um gengi krónunnar.

Trúir ríkisstjórnin því virkilega að skuldbindingar sem koma ekki til fyrr en eftir sjö ár hafi ekki áhrif á lánshæfismat ríkisins? Telur ríkisstjórnin að fyrirtæki sem meta lánshæfi líti bara fram hjá því sem á að gerast eftir nokkur ár? Og trúir ríkisstjórnin því líka sem haldið hefur verið fram að þetta hafi ekki áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs vegna þess að þetta bætist ekki við fyrr en eftir sjö ár? Þá gæti hvaða skuldsett fyrirtæki sem er væntanlega bara gefið út skuldabréf og tilkynnt að það væri þar með skuldlaust.

Það er fráleitt að ríkisstjórn skuli leyfa sér að halda fram slíkum málflutningi í þessu stærsta efnahagslega hagsmunamáli þjóðarinnar. Nú verður stjórnin að sýna fram á á hverju þessi ákvörðun byggir og ég er dálítið hræddur um að þá muni koma í ljós að hún byggir annars vegar á því að Samfylkingin vill ekki rugga bátnum gagnvart vinum sínum í útlöndum og hins vegar á því að Vinstri grænir vilji umfram allt halda völdum og það sem gerist eftir sjö ár varði ekki hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon. Þá verði hann væntanlega kominn í aðra vinnu eða farinn að gera eitthvað allt annað en að vera fjármálaráðherra (Gripið fram í: Af hverju heldurðu það?) og þar af leiðandi … (Gripið fram í.) Já, við skulum vona það, hæstv. utanríkisráðherra, og þar af leiðandi sé þetta ekki hans vandamál. (Gripið fram í: Eða forsætisráðherra?) Við skulum svo sannarlega vona að sú verði ekki raunin, hæstv. utanríkisráðherra, miðað við það hvernig á þessu máli hefur verið tekið og miðað við hvað hefur verið að marka það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt á síðustu vikum og síðustu mánuðum í þessu máli. En það er mikill misskilningur ef menn halda að með því að gefa svona algjörlega eftir í þessu máli, leggjast flatir, séu þeir að koma í veg fyrir að þeir einangrist í alþjóðasamfélaginu eins og hræðsluáróðurinn hljómar.

Hvaða ríki eru það sem einangrast í alþjóðasamfélaginu? Það eru þau ríki sem hafa ekki efni á því að vera sjálfstæð. Það eru þau ríki sem skuldbinda sig svo í erlendri mynt að þau hafa ekki efni á því að taka þátt í alþjóðasamfélaginu. Trúir Samfylkingin því virkilega enn þá, eftir að hafa verið dregin á asnaeyrunum alla þessa mánuði, að ef hún gefur eftir eina ferðina enn, ef hún lúffar núna, muni vinir hennar verða miklu þægilegri og miklu betri við hana í framtíðinni, þeir hljóti að sjá að sér? Þetta er þrælslund. Þetta er það hugarfar sem fórnarlömb, sem láta ofbeldi yfir sig ganga aftur og aftur, festast í. Að trúa því að næst verði þetta öðruvísi. Ef þessi þjóð vill vera virkur þátttakandi í alþjóðasamfélaginu, í samfélagi þjóðanna og geta tekið þar þátt, vill að ungt fólk sem hér er að alast upp og mennta sig geti starfað á Íslandi, að Ísland verði samkeppnishæft, þá skrifa menn ekki undir svona samning. Þessi samningur teflir sjálfstæði íslensku þjóðarinnar í hættu. Hann gerir ekkert nema skaða okkur efnahagslega næstu sjö árin og að sjö árum liðnum getum við átt von á annarri krísu engu minni en þeirri sem við erum nú að ganga í gegnum. En þetta er svo sem í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Öll viðbrögð hennar ganga út á að fresta, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða heimili, að lengja í lánum, fresta og sjá hvort hlutirnir verði ekki af sjálfu sér svo miklu betri eftir nokkur ár að þetta bjargist allt saman.

En þá er stóra kaldhæðnin í þessu máli sú að það sem er að gerast hérna er nákvæmlega það sama og Landsbankinn gerði þegar hann stofnaði Icesave-reikningana. Landsbankinn var kominn í vandræði. Hann átti erfitt með að fjármagna sig. Hann greip þá til þess örþrifaráðs að taka gríðarlega mikil lán í þeirri von að ástandið mundi lagast þannig að eignasafn bankans mundi verða verðmætara og bankinn gæti staðið undir þessum lántökum. Hvað gerðist svo? Eignasafnið varð ekkert verðmætara. Ástandið hélt áfram að versna og fyrir vikið varð bankinn og þjóðin öll í miklu, miklu verri stöðu en þörf var á.

Nú ætlar þessi ríkisstjórn að setja íslensku þjóðina í sömu stöðu og Landsbankinn setti sig í með því að skuldbinda allan íslenskan almenning, taka að láni meira í þeirri von að ástandið muni lagast svo mikið og eignasafnið muni hækka í verði að við getum borgað þetta allt upp einhvern tímann í framtíðinni. Þetta er óábyrgt. Þetta er versti samningur sem íslensk ríkisstjórn hefur nokkurn tímann hugleitt að skrifa undir. Þennan samning má ekki staðfesta.