137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

Icesave-samningarnir, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[16:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessa skýrslu. Við munum eins og menn heyra eflaust halda áfram að ræða þetta mikilvæga mál en það er satt best að segja ein nöturlegasta og ömurlegasta birtingarmynd hrunsins sem við upplifðum á síðastliðnu hausti og höfum skuldbundið þjóðina með svo afdrifaríkum hætti sem raun ber vitni.

Margt hefur verið sagt hér en menn verða að hafa í huga forsögu málsins og hvernig þetta var allt saman í haust, hvernig staðan var 11. október þegar þetta minnisblað var gert. Þá var allt að því hótað að loka á olíuflutninga og matvælaflutninga til landsins og samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var í algjöru uppnámi. Menn vildu leita til Noregs varðandi lán. Þar voru dyrnar líka lokaðar þar til menn hefðu náð samkomulagi eða einhverri sátt í þessu mikilvæga og erfiða máli.

Þetta voru aðstæðurnar þá. Það er rétt að draga það fram sem sagt hefur verið að utanríkisráðuneytið vissi það mætavel að þetta minnisblað var gert við Hollendinga. Utanríkisráðuneytinu var líka fullkunnugt um að ekki ætti að gera slíkt við Breta og var vel inni í málinu öllu. Utanríkisráðuneytinu var jafnframt fullkunnugt um að hollenska forsætisráðherranum var sagt að við mundum ekki halda áfram með málið á þeim forsendum og þeim grundvelli sem segir í minnisblaðinu frá 11. október.

Af hverju var það? Jú. Af því að menn vissu að aðstæður í íslensku efnahagslífi voru miklu erfiðari en menn gerðu sér grein fyrir 11. október þegar okkur var stillt algjörlega upp við vegg. Það vissu Hollendingarnir. Þess vegna héldu þeir áfram að tala við okkur um hvernig leysa ætti úr þessu máli en kröfðu okkur ekki um niðurstöðu á grundvelli samkomulagsins. Það vissu menn og við héldum aðstöðu okkar vel á lofti. Utanríkismálanefnd gerði það líka þegar hún fjallaði um tillögur utanríkisráðherra. Hæstv. utanríkisráðherra vann mikið að málinu og þetta ætti hann að vita manna best.

En hvað segir í nefndaráliti frá utanríkismálanefnd meiri hlutans? Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Frumforsenda þess að leitað væri pólitískrar lausnar á málinu var að tryggt yrði að tekið yrði tillit til hinna erfiðu aðstæðna sem nú eru uppi á Íslandi. Þau umsömdu viðmið sem þingsályktunartillagan fjallar um fela í sér viðunandi forsendur fyrir lausn að áliti meiri hlutans.“

Það var sérstaklega hnykkt á því að taka yrði tillit til erfiðra aðstæðna. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Leiði samningar ekki til ásættanlegrar niðurstöðu …“ Hvað er meiri hluti utanríkismálanefndar að segja? Nefndin er að segja: Það er hugsanlegt að við náum ekki niðurstöðu í málinu. Við ætlum ekki að gefa frá okkur okkar lagalega rétt og stöðu okkar hvað þjóðarrétt varðar. Enda segir: „… en hin umsömdu viðmið fela ekki í sér að stjórnvöld afsali sér með einhverjum hætti lagalegri stöðu að þjóðarrétti sem ríkið hefur í dag.“

Icesave-deilan er náttúrlega birtingarmynd af meingölluðu regluverki ESB. Við stöndum frammi fyrir því og deiluna þarf að leysa á pólitískum forsendum. Við vitum það. Stjórnmálaöflin þurfa að leysa þessa erfiðu deilu.

Þess vegna spyr maður sig: Var ekkert að marka þann hasar, þann hávaða og þann sannfæringarkraft sem hæstv. fjármálaráðherra var uppfullur af síðastliðið haust og undir lok síðasta árs þegar hann mótmælti þessu öllu saman eða er hann bara enn og aftur kominn með skottið á milli lappanna? Hann var á móti ESB. Hvar erum við núna? Við erum að fara að óska eftir aðild að ESB. Hann var á móti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hann hefur tækifæri til þess að breyta einhverju þar. Hann gerir það náttúrlega ekki og núna ætlar hann að skrifa undir samninga vegna Icesave-deilunnar þrátt fyrir að vera algjörlega á móti henni. (Gripið fram í: Hann er búinn …) Hvar er sannfæringarkrafturinn hjá hæstv. ráðherra? Ég tel að hann verði að upplýsa þjóðina um þessi merkilegu sinnaskipti sín í málinu.

Ég held að við verðum að segja eins og er að málið er erfitt. Ég tel að þetta hafi verið eina leiðin fyrir okkur á sínum tíma, okkur var stillt upp við vegg og við urðum að leita samninga.

En ég vil líka segja eins og þingið: Við héldum að við næðum betri niðurstöðu en við fjöllum um núna. Af hverju eru vextirnir svona háir? Og af hverju liggja ekki fyrir einhver gögn um að þetta snerti ekki lánshæfismat ríkisins? Það dugar mér ekki lengur að heyra hæstv. fjármálaráðherra segja að það skipti ekki máli, það hafi ekki áhrif. Ég vil fá að sjá gögn um að það muni ekki hafa áhrif á (Forseti hringir.) lánshæfismat íslenska ríkisins.