137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vátryggingastarfsemi.

53. mál
[17:14]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frumvarpið hefur ekki tekið neinum umtalsverðum breytingum frá síðasta hausti en innan ráðuneytisins hefur verið farið yfir málefni gagnkvæmra vátryggingafélaga sérstaklega og kannað hvaða lagagrundvöll þyrfti til að mynda ramma um starfsemi þeirra ef fyrir því kæmi fram ósk. Vilji ráðuneytisins stendur til þess að greiða fyrir því ef aðilar sem eru til þess bærir óska eftir að stofna gagnkvæmt vátryggingafélag hér á landi. Það er helsta breytingin á frumvarpinu frá því að það var síðast lagt fyrir þingið.

Ég vil jafnframt nota þetta tækifæri til að benda á að í frumvarpinu eru nokkrar breytingar sem bregðast að einhverju leyti við þeim vanköntum eða ágöllum sem voru á umgjörð tryggingamarkaðarins fyrir, m.a. það sem ég rakti í framsöguræðu minni áðan, um þrengingu á heimildum manna til að sitja í stjórn vegna hagsmunatengsla, sem ég tel mjög mikilvægt og hafi verið eitt af því sem olli því að íslensk vátryggingafélög fóru nokkuð út af sporinu eins og fréttir undanfarinn vikna og mánaða sýna.