137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vátryggingastarfsemi.

53. mál
[17:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í ljósi atburðanna í haust held ég að það sé nú ekki lítil ástæða til þess að fara að skoða regluverkið. Ég skora á hæstv. ráðherra að láta starfsfólk sitt fara vel í gegnum það og skora enn fremur á nefndina að skoða mjög vendilega hvort um einhverjar veilur geti verið að ræða. Það voru greinilega veilur í regluverki Evrópusambandsins varðandi innlánstryggingar og ég ætla að geta um þær helstu:

Ein sú helsta var að það skuli vera innlánstryggingasjóður í hverju einstöku landi en ekki einn sjóður fyrir alla Evrópu eða jafnvel allan heiminn. Það er mjög nauðsynlegt.

Önnur veilan er sú að innlán í fjármálastofnunum eru ekki með forgang eins og Íslendingar settu í neyðarlögin. Það ætti að vera regla í öllu Evrópusambandinu — bara til að koma því til Evrópusambandsins ef það skyldi vera að hlusta.

Það þriðja sem þyrfti að gera er að innlánstryggingasjóður þyrfti að hafa heimild til þess og fá jafnóðum upplýsingar um stöðu innlánsreikninga, jafnvel daglega, sérstaklega ef mikil aukning verður, þannig að hann geti fylgst með og jafnvel stöðvað innlán ef menn lokka t.d. inn innlán með mjög háum vöxtum.

Nákvæmlega það sama gildir í frumvarpinu um iðgjaldavarasjóði. Þeir geta vaxið mjög hratt á mjög stuttum tíma, sérstaklega í endurtryggingum, eins og ég gat um. Íslenskt félag þarf ekki að fara í nema nokkra daga „bisnessferð“ til Þýskalands til að stofna til mjög mikilla viðskipta í endurtryggingum. Svona sjóðir geta þá vaxið mjög hratt á örstuttum tíma. Það á eftir að koma í ljós varðandi atburðina í haust hvort Fjármálaeftirlitið er ekki að einhverju leyti ábyrgt. Það er það hugsanlega vegna þess að það hefur jú eftirlit með viðkomandi tryggingum fyrir ríkið. Þess vegna finnst mér mjög brýnt að það fái upplýsingar mjög hratt og vel um þróun mála.