137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vátryggingastarfsemi.

53. mál
[17:40]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að vísu ekki sagt mikið um það hvers vegna málið fékk ekki brautargengi þegar það var lagt fram áður en ég settist í stól ráðherra. Ég held að skýringin á því að það var ekki afgreitt á þeim þremur mánuðum eða svo sem liðu frá því að ég varð ráðherra og þangað til kosið var í vor hafi einfaldlega verið sú að málið er flókið og erfitt. Hugsanlega var einhver ágreiningur og líklega um einhver efnisatriði, t.d. gagnkvæmu vátryggingafélögin, og það hafi tafið eitthvað fyrir afgreiðslunni. Auðvitað var þingið og viðskiptanefnd undir miklu álagi líka á þeim tíma þannig að það eru sennilega skýringarnar.