137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vextir og verðtrygging.

62. mál
[17:41]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Allur þingflokkur framsóknarmanna flytur þetta mál.

Verðtrygging hefur verið á inn- og útlánum á Íslandi frá því að hin svokölluðu Ólafslög voru sett árið 1979 og var með henni ætlað að koma í veg fyrir að sparifé almennings brynni upp í verðbólgu sem tröllreið hinum vestræna heimi á áttunda og níunda áratugnum. Verðtrygging fjárskuldbindinga hefur verið gagnrýnd harkalega og bent á ósanngirnina við að fjármálastofnanir krefjist verðtryggingar, breytilegra vaxta og veðs á jafnvel einu og sama láninu og velti þannig allri áhættu við lánveitingu á skuldarann. Gallar verðtryggingarinnar komu harkalega í ljós við það mikla verðbólguskot sem varð á síðasta ári við hrun íslensks efnahagslífs. Höfuðstóll verðtryggðra lána hækkaði á rúmu ári um 20–25%. Hækkun höfuðstóls bættist þannig við hraðvaxandi atvinnuleysi, minnkandi kaupmátt, hækkandi vöruverð og lækkandi fasteignaverð og jók þannig enn meira byrðar íslensks almennings.

Í hinum vestræna heimi þekkist ekki viðlíka tenging lána við vísitölu, og má einna helst finna svipaða stöðu í vanþróuðum ríkjum eins og Brasilíu, Síle og Ísrael. Í skýrslu sem Tryggvi Þór Herbertsson vann fyrir Landssamtök lífeyrissjóða árið 2004 kom fram að verðtrygging er almennt ekki notuð við lánveitingar lánastofnana til heimila í ríkjum OECD. Í skýrslunni — væntanlega tölur frá 2002 — segir að verðtrygging hafi einskorðast við ríkisskuldabréf og þekkist hún í átta ríkjum OECD-landanna: Ástralíu, Bretlandi, Danmörku, Írlandi, Íslandi, Kanada, Nýja-Sjálandi og Svíþjóð. Hlutfall útgáfu verðtryggðra ríkisskuldabréfa er hins vegar langhæst hér á landi eða um 86%, en um 18% í Bretlandi, í Svíþjóð rúm 7%, í Ástralíu um 4% en lægra annars staðar. Skref hafa verið tekin hér á landi við að draga úr verðtryggingu og þá sérstaklega á skuldbindingum til skemmri tíma. Var meðal annars gert óheimilt að verðtryggja styttri innlán en til þriggja ára og styttri útlán en til fimm ára. Áhrifin af þessum breytingum hafa verið lítil sem engin.

Í skýrslunni fyrir Landssamtök lífeyrissjóða segir: „Tæplega þrír fjórðu hlutar verðtryggðra útlána til einstaklinga bera fasta vexti sem skýrist einkum af því að húsnæðislán Íbúðalánasjóðs, sem bera fasta vexti, eru um 60% af verðtryggðum útlánum einstaklinga. Verðtryggð lán til fyrirtækja skiptast hins vegar nokkurn veginn jafnt á milli fastvaxtalána og lána sem bera breytilega vexti. Almennt er viðskiptavinum ekki frjálst að velja á milli fastra og breytilegra vaxta.“

Samningsstaða skuldara og lánardrottna er ekki jöfn, og oft er lítið frelsi til samninga, eins og rakið er hér að framan. Rök á móti verðtryggingu eru einna helst þau að áhættu vegna veðskulda og lánasamninga er komið yfir á skuldarann einhliða. Skuldurum hefur þannig reynst erfitt að gera fjárhagsáætlanir vegna þessarar sjálfvirku hækkunar á höfuðstól lána, jafnvel vegna þátta sem Íslendingar sjálfir hafa haft lítil sem engin áhrif á svo sem verðhækkanir erlendis á eldsneyti. Verðtryggingin dró einnig að mínu mati og annarra mjög úr áhrifum stýrivaxtanna, helsta stýritæki Seðlabankans, í baráttunni við verðbólguna. Má jafnvel halda því fram að það hafi verið andstætt hagsmunum lánastofnana að draga úr verðbólgu, einmitt vegna verðtryggingarinnar.

Í ræðu hv. þm. Lilju Mósesdóttur í umræðu um stöðu heimilanna nýlega benti hún á að ef húsnæðislán landsmanna hefðu verið með föstum nafnvöxtum til fimm ára eins og víða þekkist á Norðurlöndunum hefði verðbólguskotið á síðustu 12–18 mánuðum líklegast lent að langmestu leyti á lánveitendum eða bönkum, sparisjóðum og Íbúðalánasjóði en ekki á lántökum eins og á heimilunum. Hún benti einnig á eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Rúmlega 40 lönd hafa frá árinu 1970 þurft að kljást við banka- og gjaldeyriskreppu og flest þeirra tókust á við kreppuna án þess að vera með verðtryggingu. Verðbólguskotið sem fylgdi í kjölfar hrunsins létti því skuldabyrði heimilanna í þessum löndum og varnaði því að kreppan yrði eins djúp og hún á eftir að verða hér á landi ef ekki er brugðist við hið fyrsta.“

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði við sama tækifæri:

„Verðtrygging af húsnæðislánum er nánast séríslenskt fyrirbæri vegna óstöðugleika í efnahagslífinu. Í öðrum löndum hefur efnahagskreppan þau áhrif að á sama tíma og tekjur heimilanna dragast saman lækka vextir af húsnæðislánum þegar seðlabankar lækka vexti til að örva hagkerfin. Á Íslandi erum við ekki eingöngu að fást við hrun fjármálakerfisins og djúpa efnahagslægð. Gjaldmiðillinn hrundi um leið og bankakerfið og verðbólga hefur því verið mun meiri hér en í öðrum Evrópuríkjum. Áhrifin verða þau að húsnæðisskuldir hækka vegna verðbótaþáttarins.“

Hins vegar hélt hv. þingmaður áfram og talaði um að óstöðugt verðlag hefði verið mikið böl fyrir íslensk heimili. Með verðtryggingunni væri dregið úr sveiflum á greiðslubyrði skulda heimilanna og í stað breytilegra vaxta á húsnæði séum við með fasta vexti og verðtryggingu og hélt því fram að væntanlega væru vextir af húsnæði í kringum 20% ef ekki kæmi til verðtryggingin. Þar með horfði hv. þingmaður algjörlega fram hjá því sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir benti á, að vextir á húsnæðislánum á Norðurlöndunum breytast ekki jafnt og þétt í takt við stýrivaxtaákvarðanir og einstök verðbólguskot heldur eru endurskoðunarákvæði á ákveðnu tímabili og jafnvel lög um hámarksvexti, eins og mér skilst að sé í Danmörku.

Þrátt fyrir þessar skiptu skoðanir stjórnarliðanna, hv. þingmanna Lilju Mósesdóttur og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, um ágæti verðtryggingarinnar liggur fyrir að bæði Samfylkingin og Vinstri grænir hafa ítrekað lagt fram mál til að leggja af verðtrygginguna eða draga úr skaðsemi hennar gagnvart heimilunum í landinu. Dæmi um það er frumvarp sem hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson og Katrín Jakobsdóttir lögðu fram um að hækkun vísitölunnar frá 1. janúar 2009 til 31. desember 2009 verði að hámarki 5,7% eða í samræmi við þáverandi verðbólguforsendur fjárlagafrumvarpsins.

Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að taka verðtryggingu lána í heild sinni til endurskoðunar, en þar til það hefur verið gert er mikilvægt að koma til móts við lántakendur verðtryggðra lána og ná fram þeirri breytingu sem hér er lögð til. Verði framangreindar hugmyndir um frystingu verðtryggingar á lánum að veruleika mun það auðvelda fjölmörgum skuldsettum heimilum að komast í gegnum efnahagsumrótið.“

Hæstv. ráðherrar Ögmundur Jónasson, Jón Bjarnason og Katrín Jakobsdóttir, sem voru að vísu þá hv. þingmenn, lögðu einnig til á síðasta þingi að verðtryggt lánsfé skyldi ekki bera hærri vexti en 2% og bentu á í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Við þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu, óðaverðbólgu og háa vexti, yrði þetta brýnt réttlætismál fyrir lántakendur. Sá sem tekur verðtryggt lán er með öllu óvarinn á tímum verðbólgu. Hækki verðlagið, þá hækka lánin.“

Nokkru fyrr lagði hæstv. heilbrigðisráðherra einnig fram frumvarp um að óheimilt yrði að hækka vexti af láni sem er verðtryggt og skilst mér að hann hafi lagt fram þess konar frumvarp tvisvar eða þrisvar á þingi.

Hv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur ítrekað sem stjórnarandstöðuþingmaður reynt að koma á nefnd um afnám verðtryggingar. Hins vegar verður að viðurkennast að það fréttist lítið af stofnun nefndar um verðtryggingu eftir að hún fór aftur í ríkisstjórn fyrr en eftir bankahrunið. Þá loksins var skipuð nefnd í félagsmálaráðuneytinu sem var falið að skoða hvort og þá hvaða leiðir séu færar til að bregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar. Í hópnum sátu m.a. Gylfi Arnbjörnsson, sem var formaður, Þorkell Helgason, Vilborg Helga Júlíusdóttir, Edda Rós Karlsdóttir og Ragnar Önundarson. Núverandi hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sem starfaði þá sem hagfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, var starfsmaður hópsins. Ég óskaði einmitt eftir að fá upplýsingar um hvort einhverjar niðurstöður hefðu komið frá þessari nefnd en upplýsingaþjónustu þingsins tókst ekki að afla upplýsinga um það hvort þau hefðu komist að einhverri niðurstöðu eða töldu kannski ekki ástæðu til að bregðast við vanda lántakenda vegna verðtryggingar.

Áður hafði Valgerður Sverrisdóttir, hæstv. viðskiptaráðherra þá, skipað nefnd um verðtryggingu lánasamninga og þar sat annar hv. þingmaður í þeirri nefnd, Tryggvi Þór Herbertsson. Það má því alveg segja að ýmsir hafa verið að skoða kosti og galla verðtrygginga lánasamninga sem sitja núna á þingi.

Ef við förum enn lengra til baka lagði Gísli S. Einarsson, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, fram frumvarp um að banna einfaldlega verðtryggingu fjárskuldbindinga með öllu, óháð stofnunartíma kröfunnar.

Loks má ekki gleyma þverpólitísku frumvarpi sem lagt var fram af m.a. hv. þáverandi þingmönnum Steingrími Hermannssyni, Matthíasi Bjarnasyni, Páli Péturssyni, Kristínu Ástgeirsdóttur, Jóhanni Ársælssyni, Kristni H. Gunnarssyni og Eggerti Haukdal, nánast samhljóða frumvarpi Gísla S. Einarssonar, og var einnig ætlað að klippa á allar vísitölutengingar hjá ríkinu.

Í þessu frumvarpi leggur þingflokkur framsóknarmanna fram ákveðnar breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu. Við hvetjum jafnframt til samvinnu allra flokka um frekari aðgerðir til að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga í íslensku efnahagslífi og lítum raunar á þetta frumvarp sem okkar framlag í þá vinnu sem við væntum að verði farið í, að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Í frumvarpinu er lagt til að hámarkshækkun á vísitölu neysluverðs á ári verði 4%. Þar með er ábyrgðinni af því að halda verðbólgu í skefjum og áhættunni við lántökuna skipt á milli lánveitanda og lántaka. Einnig er mikilvægt að ríkisvaldið sjálft taki frumkvæði í að draga úr notkun verðtryggingar í íslensku samfélagi og því er lagt til að ríkissjóður og stofnanir í eigu ríkisins, þar á meðal Íbúðalánasjóður og Seðlabanki Íslands, gefi ekki út verðtryggð ríkisskuldabréf. Í algjörum undantekningartilfellum væri þeim það heimilt en þá yrði að gera grein fyrir forsendunum fyrir útgáfu þeirra opinberlega.

Að auki er lagt til að við lögin bætist bráðabirgðaákvæði sem felur í sér að skipuð verði nefnd til að leita frekari leiða til að afnema sem fyrst verðtryggingu varanlega. Nýmæli er að í stað þess að Alþingi feli viðskiptaráðherra að skipa nefnd, er nefndin skipuð af Alþingi.

Viðskiptanefnd er svo falið að vinna frekar úr tillögum nefndarinnar og leggja fram nauðsynlegar lagabreytingar til að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga enn frekar en lagt er til í þessu frumvarpi.

Ástæðan fyrir því að við töldum mjög mikilvægt að setja þessi takmörk hjá ríkisvaldinu er sú að með yfirtöku ríkisins á bönkunum má segja að ríkið hafi orðið meiri háttar hagsmunaaðili varðandi það að sjá til þess að það sé hugsanlega verðbólga á Íslandi því að það þýðir að þá hækkar verðmæti eignanna og verðbæturnar. Ég held að það skipti mjög miklu máli að stjórnendur eða þeir sem sitja í ríkisstjórn hafi það mjög í huga að gæta þess að verðbólga sé sem lægst hér og að allar aðgerðir sem þeir grípa til eigi raunar að tryggja það að verðbólga verði sem lægst og sérstaklega þegar komið er ákveðið þak á vísitöluna, því að ef menn eru komnir yfir þakið fer það að skaða lánveitandann.

Að lokum mundi ég vilja lesa smápistil sem ég fann á netinu frá pistlahöfundinum Birni Lárussyni um verðtrygginguna:

„Árið 1983 tók ég lokapróf í hagfræði við háskóla í Noregi. Ein spurningin á þessu prófi var: „Gerið grein fyrir áhrifum verðbólgu í lokuðu hagkerfi.“ Ástæðan fyrir því að spurt var um lokað hagkerfi var sú að einfalda spurninguna og þar með möguleg svör. Þar sem ég var alinn upp í verðbólgu á 7. og 8. áratugum síðustu aldar á Íslandi skrifaði ég mjög ítarlegt svar við þessari spurningu. Svo óheppilega vildi þó til, að nýlega (1. janúar 1982) höfðu tekið gildi lög um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Auðvitað skýrði ég þetta fyrirbæri út á prófinu eins og ég best gat.“

Svo heldur höfundur áfram:

„Nokkrum dögum eftir próflok hringdi prófessorinn í mig og sagði að prófdómarinn vildi ræða gjarnan við mig um niðurstöðu prófsins og svör mín við þessari tilteknu spurningu. Ég hélt á fund þeirra og þeir sögðu mér að ég yrði að skýra út þetta bull sem ég hefði skrifað um á prófinu (um verðtrygginguna) og ef mér tækist það ekki yrði að fella mig á prófinu. Þeir vildu í stórum dráttum vita, hvernig í ósköpunum það gæti staðist að búa til lánskjaravísitölu (renteindeks) til útreikninga á viðbótarvöxtum (verðbótum) af inn- og útlánum í takt við verðbólgu til að berjast gegn þessari sömu verðbólgu. Slíkt hlyti að þeirra mati að vera innbyggður hvati til verðbólgu með víxlhækkun vaxta og verðlags og þar með launa. Það sem reyndar hafði ekki gerst þá var að komið var í veg fyrir hækkun launa með því að taka launavísitölu úr sambandi. Við rökræddum þetta fram og til baka í eina og hálfa klukkustund og ég sá hvernig andlit þeirra varð smá saman eitt spurningarmerki eftir því sem ég færði fleiri rök fyrir máli mínu enda kunni ég lögin og greinargerðina nær utan að þá. Þess má geta að á þeim tíma var 140% verðbólga á Íslandi á ársgrundvelli miðað við eins mánaðar mælingu að mig minnir.

Að lokum sagði prófdómarinn: „Ég ætla að hleypa þér í gegnum þetta próf. Ekki vegna þess sem þú hefur sagt eða skrifað heldur vegna þess að ég hef sannfrétt að þú hafir ekki í hyggju að stunda þessa vitleysu hér í Noregi. Mér er sagt að þú farir til Íslands að loknu prófi hér til að taka þátt í ruglinu í efnahagsmálum þar. En ég ætla að biðja þig lengstra orða að ræða þessa vitleysu ekki við nokkurn vitiborinn hagfræðing. Enn fremur, ef þetta ber á góma, þá ætla ég að biðja þig fyrir alla muni að segja ekki hvar þú lærðir hagfræði til að vernda okkar góða orðspor hér við viðskipta- og hagfræðideildina. Að mínu mati eru þið Íslendingar í fullri vinnu við að koma óorði á hagfræðina. — Vertu sæll og gangi þér vel í bullinu á Íslandi.“

Svo mörg voru þau orð. Verðtryggingin á ef til vill vel við í þjóðhagfræðinni (makro ökonomiu) sem hagstjórnartæki til skamms tíma en ágæti hennar er ekki eins augljóst í viðskiptafræðinni (micro ökonomiu) m.a. vegna hugsanlegra víxlhækkunar vaxta og verðlags og þar með launa. Hún getur haft mjög slæm áhrif á rekstur fyrirtækja og verið jafnómöguleg við áætlanagerð eins og verðbólgan raunar einnig. Ég sagði að verðtryggingin hefði ef til vill jákvæð áhrif til skamms tíma sem hagstjórnartæki en að við skulum enn búa við hana 27 árum síðar er bara til vitnis um gjörsamlega mislukkaða hagstjórn eða einhverja innbyggða vitleysu og rugl í hagkerfinu eins og norski prófessorinn hélt fram.“

Annar pistlahöfundur sem hefur skrifað greinar og birt í Fréttablaðinu , hagfræðingurinn Michael Hudson, segir grein sinni þar, með leyfi forseta:

„Í gegnum söguna hafa skuldugar þjóðir oftast farið þá leið að losa sig við skuldirnar með hjálp verðbólgu, þ.e. borgað skuldirnar með ,,ódýrum peningum“. Ríkisstjórnir prenta peninga og viðhalda fjárlagahalla til þess að hækka verðlag og þannig er meira fjármagn í boði, en vöruframboð óbreytt. Þessi verðbólga og gengisfall minnka skuldabyrðina svo framarlega sem laun og aðrar tekjur hækka samhliða. Ísland hefur hreinlega snúið þessari lausn á hvolf. Í stað þess að auðvelda hina hefðbundnu skuldaleiðréttingu hefur verið sköpuð paradís lánardrottna og hinni sígildu flóttaleið skuldsettra þjóða lokað. Þjóðin hefur fundið leið til að steypa sér í skuldir með hjálp verðbólgunnar, í stað þess að vinna sig úr þeim með henni. Með verðtryggingu skulda hefur Ísland komið upp einstöku kerfi fyrir banka og aðra lánardrottna sem stóreykur tekjur þeirra af lánastarfsemi, á kostnað launa og tekna af raunverulegri atvinnustarfsemi.“

Þessu frumvarpi er ætlað að koma með smáframlag til þess að leita leiða til að frelsa íslenskan almenning úr þessari „paradís lánardrottna“, úr bullinu, og létta byrðar skuldugra heimila og fyrirtækja á meðan leiðin út úr skuldafeninu er mörkuð.