137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vextir og verðtrygging.

62. mál
[18:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um vexti og verðtryggingu sem hefur það helst að leiðarljósi að takmarka verðtryggingu við 4%. Margir hafa rætt þetta mál og ég er dálítið undrandi á því hve margir hv. þingmenn sem hafa sýnt hafa þessu máli athygli og áhuga skuli ekki vera mættir í dag.

Á 30 ára tímabili, frá 1950 til 1980, var þannig komið á Íslandi að innlánsvextir voru ákveðnir af Seðlabankanum og þeir voru ætíð ákveðnir lægri en verðbólgan þannig að sparifjáreigendur töpuðu í sífellu og skuldarar græddu af því að útlánsvextir voru undir verðbólgunni. Það varð til þess að ásókn í lánsfé varð gífurleg, nánast endalaus, biðraðir mynduðust hjá bankastjórum og flestir sparifjáreigendur sáu að sér og hættu þessari vitleysu, hættu að spara. Og þeir sem héldu áfram að spara höfðu ekki undan verðbólgunni þannig að sparnaður landsmanna minnkaði óðfluga. Ég hygg að þjóðin hafi á þessum tíma lært að það borgi sig ekki að spara og það borgi sig að skulda. Hún sé miður ekki búin að gleyma því og þess vegna er þessi mikla eyðslugleði — að ég tali nú ekki um eyðslugræðgi — hér á landi.

Lífeyrissjóðirnir voru í þeirri stöðu 1980 að þeir voru allir gjaldþrota, ekki bara tæknilega heldur hreinlega gjaldþrota. Þeir gátu ekki borgað neinn lífeyri sem heitið gat vegna þess að eignir þeirra sem voru lán til sjóðfélaga brunnu upp á verðbólgubálinu því að þær voru óverðtryggðar. Var það iðulega þannig að fólk keypti íbúð og eftir svona 3–4 ár nam afborgunin af láninu um það bil verði kaffibolla og skipti engu máli, hvorki fyrir lífeyrissjóðinn né manninn. Þá var reynt að bjarga lífeyrissjóðunum með því að verðtryggja bæði lífeyri og útlán og með því tókst að bjarga lífeyrissjóðunum. Reyndar kostaði það miklar fórnir af hendi lántakenda sem hafa kannski gleymst. En það er beint samhengi á milli lífeyrissjóðanna og verðtryggingar. Verðtryggingin var leið til að bjarga lífeyrissjóðunum úr þeirri sveiflukenndu verðbólgu sem við lendum alltaf í öðru hverju, en ekki til að laga verðbólguna, frú forseti. Það datt engum í hug. Það var til að laga afleiðingar verðbólgunnar sem verðtryggingin var tekin upp.

Hvers vegna eru vextir háir á Íslandi en ekki í t.d. Japan? Það er afskaplega einfalt. Það eru svo margir sem vilja spara í Japan en svo afskaplega fáir sem vilja eyða. Á Íslandi er þessu einmitt öndvert farið. Hér vilja nánast allir eyða og afskaplega fáir vilja spara, enda er ekki í frumvarpinu minnst einu einasta orði á sparifjáreigendur sem eru undirstaða sparnaðarins, sem eru undirstaða þess að menn geti lánað, að einhver lánamarkaður sé til, að lántakendur geti fengið peninga yfirleitt. Við Íslendingar höfum vanist því að taka lán erlendis. Við höfum séð afleiðingar þess síðan í haust, því miður.

Vextir eru háir á Íslandi vegna þess að það eru svo óskaplega margir sem vilja sem vilja eyða og svo afskaplega fáir sem vilja spara. Þessi tillaga mun ekki auka fjölda þeirra sem vilja spara, það er alveg á hreinu. Ef allt í einu kæmi verðbólguskot upp á 20% og þeir ættu að sætta sig við 4% verðtryggingu er ég ansi hræddur um að þeir tækju til fótanna og hættu þessari vitleysu eins og þeir gerðu á árunum 1950–1980. Þetta eru nefnilega ekki bara einhverjir vondir fjármagnseigendur. Ég fullyrði að útrásarvíkingar, fjárglæframenn og þeir sem hafa staðið mest í „bisness“ eiga ekki krónu í banka, ekki sem innstæðu, ég fullyrði það. Þeir skulda. Það er oft og tíðum gamalt fólk sem á innstæður í banka, það er líka ungt fólk sem á innstæður í banka og það er mjög viðkvæmt fyrir því ef skerða á innstæðuna.

Ég get t.d. keypt bensín á bílinn en sleppi því að gera það og legg peninga í banka í trausti þess að ég geti keypt bensín á bílinn eftir eitt ár eða tvö, þrjú, fjögur ár nákvæmlega jafnmarga lítra en ef einhver ætlar að fikta við verðbólguna þannig að ég geti ekki keypt lengur bensín á bílinn af því að búið er að taka bensíngjaldið út úr þá hætti ég að spara. Það er nefnilega svo einfalt. Sparifjáreigandinn getur alltaf farið í hóp hinna sem eyða og spenna, hann getur orðið eins eyðsluglaður og hinir, það er svo auðvelt. Þetta frumvarp ýtir undir það, frú forseti.

Það kom fram í umræðunni að áhættan sé komin einhliða yfir á skuldarann. Það er ekki rétt. Sá sem leggur fyrir getur keypt sinn bensínlítra aftur og sá sem tekur lánið veit að hann þarf að borga nákvæmlega sama bensínlítrann aftur. Það hefur sýnt sig, sérstaklega nú í vetur, að ef þessi lán hefðu ekki verið verðtryggð og ef menn hefðu ekki ætlað að hlunnfara sparifjáreigandann hefðu vextir farið upp í 20% og þá hefðu vextir af 30 millj. kr. láni verið 6 millj. kr., frú forseti. Þá hefðu þeir aldeilis séð hrinu af gjaldþrotum strax, engin miskunn þar. 500 þús. kall á mánuði í vexti og þá er afborgunin ekki meðtalin. En ef menn ætla sér að stela frá sparifjáreigandanum, eins og kemur reyndar fram í frumvarpinu, það sé aðferð til að stela frá sparifjáreigandanum — fínt — virðast menn gefa í skyn af það sé of mikið af sparifjáreigendum, það sé of mikill sparnaður og þeir ætla sér að reyna að ná honum niður með þessum hætti. En ég fullyrði, frú forseti, að á Íslandi er ekki of mikið af sparifjáreigendum. Það er alveg á tæru. Það er eitthvað sem vantar mest af öllu.

Sparifjármyndun á Íslandi er aðallega í gegnum lífeyrissjóðina og það gleymist líka í þessu að um leið og verðtrygging lífeyrissjóðanna er skert með þessum hætti verður að skerða verðtryggingu lífeyris því að það er beint samhengi þar á milli. Reyndar eru ekki allar eignir lífeyrissjóðanna verðtryggðar. Það eru líka hlutabréf og það eru líka erlendar eignir og annað slíkt en lífeyrissjóðirnir eru að skerða lífeyri. Ætla menn þá að auka skerðingu? Það getur vel verið að hv. þingmenn séu allir gulltryggðir í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þar sem réttindin eru gulltryggð og þingmenn völdu sér besta lífeyrissjóð landsins í vetur sem er að því leyti gulltryggður að þar eru réttindin ekki skert. En það er verið að skerða réttindi úti um allan bæ og skerðing á verðtryggingu þýðir ekkert annað en enn eitt áfallið fyrir lífeyrissjóðina sem þyrftu að skerða verðtryggingu á lífeyrinn sinn. Lífeyririnn er nefnilega verðtryggður og það eru 30 þúsund manns, ef ég man rétt, sem þiggja lífeyri, sennilega fleiri sem þiggja lífeyri úr lífeyrissjóðum. Það getur vel verið að þingmönnum sé alveg sama um þetta fólk, ég veit það ekki. Þeir eru sjálfir í tryggðum lífeyrissjóði og þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu. (Gripið fram í.) En þann sem er með 50 þúsund kall á mánuði úr lífeyrissjóði munar um það og ef skerða á hann eins og nú er verið að kynna, um 10%, 5 þús. kr., er það slæmt. Og ef skerða á enn meira með því að afnema verðtrygginguna er það enn þá verra. Uppspretta fjár á Íslandi er nefnilega í skyldusparnaði gegnum lífeyrissjóðina vegna þess að það eru svo fáir sem vilja spara. Ég vil gjarnan spyrja hv. þingmenn: Hvernig ætla þeir að byggja upp innlendan sparnað ef þeir ætla að að ráðast svona á undirstöðuna, þ.e. verðtrygginguna?

Auðvitað er verðtryggingin slæm, það er fáránlegt í rauninni að vera með tvær myntir í svona litlu landi. Verðtryggða myntin er sérmynt og við ættum að sjálfsögðu að afnema verðtryggingu á nýja samninga. Það gætum við gert. Og svo eftir 10 ár gætum við byrjað að kaupa upp verðtryggða samninga sem enn væru eftir. Það getum við gert. En við getum ekki gengið á verðtryggða samninga fyrir utan það að ákvæði 1. gr. um 4% hámark gengur þvert á alla samninga sem fólk hefur gert sín á milli. Hvað ætla menn að gera við gömlu konuna sem lánaði dóttur sinni peninga verðtryggt án vaxta? Þetta hefur verið prívatsamningur milli tveggja persóna. Ætla menn virkilega að segja að dóttirin eigi ekki að borga einn kaffibolla með sykri heldur einn kaffibolla án sykurs eftir ár? Ætlar hún virkilega að ganga inn á þennan prívatsamning? Það gengur ekki samkvæmt stjórnarskránni. Það gengur ekki samkvæmt stjórnarskránni að 1. gr. fari í gang. Hins vegar getum við unnið að því til framtíðar að afnema verðtryggðar skuldbindingar og ég er hlynntur því af því að ég sé hvað það er erfitt að bremsa verðbólguna með tvær myntir í landinu. En ég bendi hins vegar á að ef það kemur verðbólguskot eins og gerðist í Þýskalandi einhvern tíma þegar vextir fóru upp í 13% urðu fjöldagjaldþrot hjá almenningi, bara við 13% vexti. Í flestum löndum eru nefnilega breytilegir vextir, Liborvextir sem grundvöllur lána og fólk þarf þá að mæta verðbólgunni strax. Ef ekki, ef það er fast til fimm ára eins og sums staðar, eru vextirnir sem því nemur hærri alla tíð. Það eru tvær hliðar á medalíunni, það eru sparifjáreigendur annars vegar og skuldarar hins vegar og það er ekki þannig að bankar eigi peninga. Bankar eru ekki innlánseigendur, eiginlega aldrei. Þeir taka við innlánum og lána innlán út.

En ég held að það sé mjög gott að við ræðum þessi mál, að við förum gegnum þau, að við fáum rök með og móti. Ég er búinn að ræða um 20% skerðingarleið framsóknarmanna ítarlega aftur og aftur og búinn að koma með mín rök á móti henni og þau hafa ekki verið hrakin. Hér kem ég líka með andsvör við því að afnema verðtrygginguna einhliða aftur í tímann, ég held að það gangi ekki upp. En hins vegar er ég alveg hlynntur því að hún verði afnumin fram í tímann. En þá þurfa menn líka að átta sig á því hvaða afleiðingar það hefur.