137. löggjafarþing — 16. fundur,  8. júní 2009.

vextir og verðtrygging.

62. mál
[18:24]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal snýr öllu á hvolf í þessu máli. Með frumvarpinu er ekki verið að taka eign af sparifjáreigendum. Allir þingmenn eru sammála um það, eftir því sem ég best veit, að lækka þurfi stýrivexti. Hvað gerist þá? Þeir sem eiga innlán — það hefur enginn haldið því fram að þeir séu vont fólk og auðvitað eigum við að hvetja fólk til að spara — við lækkun á stýrivöxtum mun hagur þeirra væntanlega rýrna vegna þess að þeir munu fá minni ávöxtun. Hér er einfaldlega verið að leggja til að þetta verði bundið við 4% til að áhættan sé ekki öll á lántakandann. Það er staðreynd í dag, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að lántakandinn, sá sem þarf að koma yfir sig þaki, sá sem þarf að taka lán — stundum þurfa menn einfaldlega að taka lán til að geta komið fyrirtækjum sínum á fót og til að skjóta skjólshúsi yfir fjölskylduna — við erum að tala um það hér að við komum til móts við þá líka.

Jöfnum áhættuna. Hvað sem hv. þingmanni finnst um þetta frumvarp okkar framsóknarmanna þá hlýtur hann að vera sammála því að við þurfum að jafna áhættuna með einum eða öðrum hætti. Þetta getur ekki gengið svona á Íslandi eins og það hefur gert, að verðtryggingin og verðbólgan rýkur upp úr öllu valdi og þeir einu sem þetta bitnar á eru þeir sem hafa tekið lán. Við erum að biðja hina um að koma aðeins til móts við þá sem hafa tekið lán. Við erum einfaldlega að biðja (Forseti hringir.) lánveitendur um að gefa pínulítið eftir af sinni ávöxtun.