137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er rétt sem hér er upplýst og ég hygg að þessi fundur í hv. efnahags- og skattanefnd og í viðskiptanefnd muni komast á spjöld sögunnar. Kannski kemur til þess, eins og einn hv. þingmaður nefndi þar í morgun, að þingmenn þurfi að fara að berja búsáhöld inni í þessum sal til að kalla fram upplýsingar.

Það er rétt að fyrir nefndirnar komu fulltrúar Fjármálaeftirlitsins sem sögðust hafa gengið þannig frá samningum síðastliðið haust að þeim væri ómögulegt að veita þessum tilteknu nefndum þingsins upplýsingar sem varða mat á eignum og skuldum gömlu bankanna og mat á aðferðafræðinni sem þessar nefndir þurfa að sjálfsögðu að kynna sér nákvæmlega til að geta tekið upplýsta ákvörðun sem varðar m.a. fjárframlag ríkisins inn í nýju bankana, þ.e. það eigið fé á fjárlögum núna sem eru litlir 385 milljarðar.

Þetta er ekki lítið mál og ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði áðan að þetta er prófsteinn á það hvort Alþingi getur unnið að endurreisn efnahagslífsins og uppbyggingu nýrra banka. Og til þess að svo sé þarf auðvitað að ríkja gagnsæi og traust á milli aðila um öll mál. Menn geta ekki lokað hluti eins og þessa inni og borið við samningum, bankaleynd, jafnvel upplýsingalögum. Formenn þessara nefnda beggja munu í framhaldinu að sjálfsögðu þrýsta á um að fá umbeðnar upplýsingar inn í þessar nefndir. Það kemur ekki annað til álita.