137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég var á þessum víðfræga fundi efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar í morgun og ég vildi bara árétta það að upplifun allra þingmanna á þessum nefndarfundi var mjög svipuð, hvort sem um stjórnarandstöðuþingmenn eða stjórnarþingmenn var að ræða.

Vonbrigðin voru gríðarleg. Framkvæmdarvaldið hafði greinilega gert samning og með þeim samningi var löggjafarvaldið hindrað í að fá þær upplýsingar sem það þarf til að geta tekið góðar og réttar ákvarðanir, því að það er hlutverk okkar stjórnmálamanna á þessum tíma að taka oft og tíðum óvinsælar ákvarðanir en þær þurfa að vera réttar og byggðar á réttum upplýsingum. Ég vildi árétta þetta.

Ég vil líka blanda mér í umræðu um Icesave sem hér hefur farið fram vegna þess að það eru vonbrigði að sjá hvernig Framsóknarflokkurinn er á hlaupum undan þessu máli. Ég held að þingmenn ættu að taka sig saman núna. Við erum kjörin hingað til þess að taka erfiðar ákvarðanir og stundum eru þær óvinsælar. Við erum ekki hér til að taka vinsælar ákvarðanir heldur erfiðar ákvarðanir byggðar á réttum upplýsingum. (Gripið fram í: Góðar ákvarðanir.)

(Forseti (ÁRJ): Fá hljóð í salinn.)