137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

tímabundin ráðning starfsmanna.

78. mál
[14:26]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna.

Frumvarpið er lagt fram í því skyni að innleiða með fullnægjandi hætti Evróputilskipun um rammasamning um tímabundna ráðningu en tilgangur tilskipunarinnar er að koma í veg fyrir misnotkun í tengslum við tímabundnar ráðningar.

Þannig er mál með vexti að Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé í andstöðu við tilgang tilskipunarinnar ef reglur kveða á um að nýr ráðningarsamningur verði ekki talinn taka við af eldri samningi, líði lengri tími en 20 virkir dagar á milli þess að samningar milli sömu aðila eru gerðir.

Í kjölfar þessa dóms Evrópudómstólsins gerði Eftirlitsstofnun EFTA athugasemdir við 2. mgr. 5. gr. laga um tímabundna ráðningu starfsmanna.

Í frumvarpinu er því lagt til að nýr ráðningarsamningur teljist taka við af öðrum samningi sé hann framlengdur eða ef nýr tímabundinn samningur kemst á milli sömu aðila innan sex vikna frá lokum gildistíma eldri samnings í stað þriggja vikna áður. Þykja sex vikur hæfilegur tími í þessu tilliti til að verja hag starfsmanna og er sá tími talinn ná tilgangi laganna þess efnis að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningum.

Við smíði frumvarpsins var haft samráð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök atvinnulífsins.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað hv. félags- og tryggingamálanefndar.