137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

fjármálafyrirtæki.

85. mál
[14:43]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Sem varaformaður viðskiptanefndar þakka ég viðskiptaráðherra fyrir þetta frumvarp sem nú er á leið til nefndar. Það er mikilvægur liður í því endurreisnarstarfi sem fram undan er og enn eitt stóra málið sem kemur inn á borð viðskiptanefndar, kannski þá við rústabjörgun ef svo mætti að orði komast sem við öll erum í. Sparisjóðirnir gegna mikilvægu hlutverki í bankakerfinu hér á landi, hvort sem við erum að tala um á Stór-Reykjavíkursvæðinu eða úti um land. Ég vona að nefndinni lánist að vinna þetta mál vel, markvisst og á góðum hraða.