137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[14:44]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með frumvarpinu er lögð til sú meginbreyting að hver námsmaður eigi sjálfur að vera ábyrgur fyrir endurgreiðslu eigin námsláns, að uppfylltum skilyrðum stjórnar lánasjóðsins. Frumvarpið felur þannig í sér að núverandi ábyrgðarmannakerfi er aflagt.

Krafan um ábyrgðarmenn á námslán hefur verið umdeild um árabil og hefur því verið haldið fram að hún samræmist ekki þeim tilgangi laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna að tryggja jafnrétti til náms. Sumir námsmenn hafa ekki átt þess kost að afla sér ábyrgðarmanna og þurft að leggja fram bankatryggingu í þess stað.

Ákvæði um ábyrgðarmenn eru nú í 5.–7. mgr. 6. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Samkvæmt 5. mgr. er áskilin yfirlýsing að minnsta kosti eins manns um að hann taki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns ásamt vöxtum og verðtryggingu þess allt að tiltekinni hámarksfjárhæð og í 6. mgr. er tekið fram að lánsheimild stjórnar sjóðsins miðist við fjárhæðarmörk sjálfskuldarábyrgðar. Þá segir í 7. mgr. 6. gr. að stjórn sjóðsins ákveði hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Enn fremur segir í sömu málsgrein að ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, geti fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi. Í framkvæmdinni hefur almennt verið krafist eins ábyrgðarmanns nema í þeim tilvikum þegar námsmaður er á vanskilaskrá. Krafan um ábyrgðarmenn er nánar útfærð í úthlutunarreglum lánasjóðsins.

Heimild stjórnarinnar til niðurfellingar á skuldbindingum ábyrgðarmanna námslána er bundin við að námsmaður setji tryggingu í staðinn sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi. Trygging er kemur í stað ábyrgðarmanna getur m.a. verið bankatrygging og hafa bankar veitt slíkar tryggingar gegn 2,5% ábyrgðargjaldi.

Í frumvarpinu felst sú breyting að samkvæmt meginreglu þurfi námsmaður sem uppfyllir skilyrði stjórnar lánasjóðsins um lánshæfismat ekki að leggja fram yfirlýsingu annars manns um sjálfskuldarábyrgð. Þess í stað er tekið fram að námsmenn sem fá lán úr sjóðnum, skuli undirrita skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð við lántöku en með því er vísað til þess að námsmaður taki ábyrgð á eigin láni. Í þágu námsmanna sem ekki uppfylla lánshæfisskilyrði er hins vegar lagt til að viðhaldið verði þeim möguleika að láta ábyrgðarmann ábyrgjast endurgreiðslur námsláns, leggja fram bankatryggingu eða veðtryggingu í fasteign. Þeim möguleikum er því haldið opnum sé þannig ástatt fyrir um lántakanda.

Í ákvæði til bráðabirgða er tekið fram að ákvæði frumvarpsins taki ekki til þeirra sem fengið hafa lánsloforð fyrir gildistöku laganna. Um réttarstöðu þeirra fer á hinn bóginn eftir gildandi lögum og reglugerð um lánasjóðinn. Við frágang skuldabréfa hefur verið fylgt þeirri framkvæmd að í upphafi náms, eða þegar tilkynnt er um lánsrétt, er útbúið skuldabréf með tilgreindum ábyrgðarmanni. Skuldabréfið er opið í þeim skilningi að þegar námi lýkur eru greiðslur til námsmanns færðar inn á skuldabréfið og þá gengið endanlega frá útgáfu þess. Í 1. mgr. er við það miðað að þeim sem hafi opin skuldabréf við gildistöku laganna, eða rétt um 13 þúsund nemendur, verði tilkynnt bréflega um breytinguna og um leið verði útbúið nýtt opið skuldabréf án ábyrgðarmanns, vegna þess náms sem ólokið er. Lánafyrirgreiðslur sem hafa þegar verið veittar verða því færðar til skuldar samkvæmt eldra fyrirkomulagi en innheimta þess hefst ekki fyrr en tveimur árum eftir að námi er lokið í samræmi við úthlutunarreglur lánasjóðsins. Með þessu fyrirkomulagi er leitast við að tryggja sem best samræmi milli einstakra lántakenda.

Við undirbúning frumvarpsins var rætt hvort veita ætti stjórn lánasjóðsins heimild til að aflétta ábyrgð ábyrgðarmanns á þegar veittu námsláni án þess að gerð verði krafa um að námsmaður setji aðra tryggingu í hennar stað. Að baki slíkri tillögu hafa verið upplýsingar um tilvik þar sem ábyrgð er upphaflega veitt við aðrar aðstæður, í sambandi á milli lántaka og ábyrgðarmanns, en eru síðar þegar reyna kann á ábyrgðina. Þetta þýðir á mannamáli að aðstæður fólks á milli geta auðvitað breyst frá því að ábyrgð er veitt og stundum hugsar fólk kannski ekki mikið um það þegar það skrifar upp á ábyrgð en er svo illa svikið jafnvel mörgum árum síðar þegar reynir á ábyrgðina.

Við nánari skoðun þykir sú leið ekki fær að taka upp almenna heimild fyrir stjórn lánasjóðsins að fella niður ábyrgð á útistandandi námslánum án þess að önnur trygging komi á móti. Ræður þar mestu að með því kynni að draga verulega úr innheimtuhlutfalli námslána og þar með yrði gengið nærri fjármögnun LÍN, enda lætur nærri að innheimta námslána standi undir um það bil helmingi af árlegum útgjöldum sjóðsins. Í þess stað er hér lagt til í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða að ábyrgðarmenn njóti sambærilegrar réttarverndar og veitt hefur verið í lögum um ábyrgðarmenn. Ákvæði þeirra laga gilda ekki afturvirkt um þegar veittar sjálfskuldarábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum. Með 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins frumvarpsins yrði LÍN hins vegar bundinn af reglum III. kafla laga um ábyrgðarmenn. Af því leiðir m.a. að tilkynna ber ábyrgðarmanni um vanskil lántaka jafnskjótt og kostur er. Þá verður ekki unnt að gera aðför í fasteign ábyrgðarmanna til innheimtu sjálfskuldarábyrgðar á námsláni og slík krafa getur ekki orðið grundvöllur kröfu um gjaldþrotaskipti á búi ábyrgðarmanns. Segja má að með slíku fyrirkomulagi sé fólgin ákveðin vernd fyrir ábyrgðarmenn.

Hugsunin á bak við þetta frumvarp er að hefja nýtt fyrirkomulag og byrja upp á nýtt, breyta fyrirkomulaginu án þess að það sé hugsað afturvirkt heldur eingöngu framvirkt. Með þessu færist lánasjóðurinn meira í átt til þess sem tíðkast á Norðurlöndum þar sem ekki er krafist ábyrgðarmanna á námslán heldur eru námsmenn ábyrgir fyrir eigin námslánum. Hugsanlegt er að þetta kunni að hafa útgjaldaaukningu í för með sér en það er þá ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir 2012 sem fyrst reynir á endurgreiðslu samkvæmt hinu nýja kerfi. En þó er mjög óljóst hvort af útgjaldaaukningu verður því að samkvæmt mjög óformlegri reynslu af svona aðstæðum á Norðurlöndum virðast heimtur af lánum þar góðar. Það er þó ekki endilega neitt sem við getum byggt á hér við núverandi aðstæður en ljóst er þó að ekkert slíkt ætti að hefjast fyrr en eftir einhver ár.

Með þessu erum við um leið að tryggja jafnræði námsmanna, þeir þurfa ekki að leita sér ábyrgðarmanns nema þeir teljist ekki lánshæfir. Ég lít því svo á að þarna sé krafa námsmannahreyfinga um árabil uppfyllt og námsmenn gerðir ábyrgir fyrir láni sínu og lántökum vegna þess en áður.

Ég lít svo á að frumvarpinu sé ætlað að tryggja enn frekar það hlutverk lánasjóðsins sem kveðið er á um í lögum og veita námsmönnum tækifæri til náms án tillits til efnahags. Legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. menntamálanefndar að lokinni 1. umr. og þykist ég vita að þar verði ýmislegt til umræðu svo sem hugsanleg heimildarákvæði eða annað slíkt sem um hefur verið rætt og ég reikna með að nefndin muni taka til ítarlegrar skoðunar.