137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[14:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér kemur fram gagnmerkt frumvarp sem er mjög athyglisvert. Það kemur í kjölfar frumvarps sem við samþykktum í vor, um að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanna eða hverfa frá því kerfi ábyrgðarmanna sem bankakerfið hefur verið helsjúkt af í áratugi og lánasjóðurinn sömuleiðis.

Mér finnst vanta dálítið í frumvarpið og greinargerðina að geta þess að nám er fjárfesting þannig að námslán eru fjárfestingarlán. Flestir halda að námskostnaður séu bækur og skólagjöld og annað slíkt og sumir reikna með að það séu laun kennara og afskriftir fasteigna og annað slíkt. En það er eiginlega minnsti kostnaðurinn því að mesti kostnaðurinn er fórnarkostnaður nemanda sem fórnar vinnutíma. Hann vinnur jú ókeypis. Sá kostnaður hleypur á milljónum á ári þannig að þetta er mjög verðmæt og dýr fjárfesting og hefur verið mjög óeðlilegt að eitthvert fólk úti í bæ ábyrgist að þessi lán séu greidd til baka.

Það eru margar sögur af mjög óeðlilegri ábyrgð, hvernig hún birtist. Það er mjög erfitt t.d. fyrir tengdapabba eða tengdamömmu eða bara foreldra kærustunnar eða kærastans að neita námsmanni um að skrifa upp á hjá honum og eins og gengur rofnar sambandið og eftir situr einhver maður úti í bæ sem ber ábyrgð á láni hjá viðkomandi námsmanni. Svo fer námsmaðurinn til útlanda og þá gerast nú alls konar hlutir í því efni, sumir borga aldrei neitt af láninu og gefa því langt nef.

Ég skora á hv. menntamálanefnd þegar hún fær málið til umfjöllunar að hún skoði hvort ekki verði gengið þannig frá að fyrst sé gengið á skuldarann eins og hægt er. Það hefur nefnilega verið svo undarlegt á Íslandi — ég kann sögu um það — að gengið er fyrst að ábyrgðarmanninum. Hann er fyrst látinn greiða og síðar, hugsanlega alls ekki, er gengið á skuldarann. Það hafa meira að segja komið upp þau dæmi að ábyrgðarmaðurinn er á svörtum lista af því að hann lenti í ógurlegum hremmingum út af ábyrgð sem hann skrifaði upp á. Hann er á svörtum lista í bönkum, ekki bara í eitt eða tvö ár heldur í áratugi. Ég heyrði af einum ábyrgðarmanni sem var á svörtum lista í 18 ár.

En skuldarinn, hann var aldrei beðinn um neitt. Hann þurfti aldrei að borga neitt. Það er því mjög skrýtið hvernig þessi mál hafa æxlast og ábyrgðarmaðurinn sem ég gat um áðan missti íbúðina sína sem var forsenda þess að hann veitti ábyrgðina og var hundeltur eftir það. En menn nenntu ekkert að leita að skuldaranum sjálfum sem átti enga íbúð.

Ég fellst á það á vissan hátt að menn geti ekki látið það gilda aftur í tímann en ég vonast til þess að nefndin skoði það að alla vega að vinnulaginu sé breytt þannig að gengið sé fyrst á skuldarann.

En ég tel þetta vera mjög brýnt mál og ég lít á námslán sem fjárfestingarlán. Verið er að fjárfesta í verulega dýrmætri fjárfestingu sem er menntun. Ég tel eðlilegt að sá sem eignast fjárfestinguna, þ.e. námsmaðurinn, beri einn ábyrgð á því og greiði það til baka um leið og hann fer að nota fjárfestinguna.