137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[15:24]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður heyrði í ræðu minni áðan benti ég á að það eru engar einfaldar lausnir á Icesave-deilunni. Hv. þingmaður veit það. Ég var ein þeirra þingmanna sem fluttu mál í desember um að það ætti að nýta heimildina til að fara í mál og gert yrði ráð fyrir því á fjárlögum að aðstoða Landsbankann við að fara í mál út af Icesave-skuldbindingunum og meðferðinni á Landsbankanum og hryðjuverkalögunum. Sá frestur rann út í janúar og við getum sagt að ýmsar dyr hafi lokast í meðförum þessa máls. Þannig er það bara. Þetta er ekki einfalt mál og þess vegna ítrekaði ég áðan í ræðu minni að þarna væru engar einfaldar lausnir. Hv. þingmaður þekkir algerlega minn hug í því, hvernig hann var, ég vildi láta á þetta reyna. Nú erum við komin í þá stöðu að það er ekkert einfalt að höfða mál á þjóðréttarlegum grunni, að því er mér skilst, þar sem önnur ríki geta neitað að taka málið fyrir rétt eins og Íslendingar gerðu í þorskastríðinu og hv. þm. Árni Páll Árnason benti á í ræðu í gær og hefur verið sett fram. (Gripið fram í: Hvað liggur okkur á?)

Ég reikna með því að Evrópustefna Vinstri grænna verði rædd í umræðum um þessi mál í þinginu. Ég álít að hún hafi algerlega legið skýr fyrir og það þegar á síðasta landsfundi þar sem segir efnislega, ekki man ég það orðrétt, að við teljum að við eigum að vera utan ESB. Það er mín skoðun. Hins vegar höfum við líka sagt að þjóðin eigi að úrskurða um það og verði það gert með því að kjósa um samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu kann að vera að það sé skynsamlegasta leiðin til að útkljá þessi Evrópumál. En ég tel að við eigum að standa utan Evrópusambandsins og lít ekki svo á að Icesave-reikningarnir hangi í einhverju samhengi við það þó að það sé sett í það samhengi.