137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[15:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég mun ræða Icesave þegar það mál kemur hingað til umræðu þannig að það sé á hreinu, en við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Það er alveg ljóst að lánasjóðurinn er sterkur sjóður og það er ekki út af engu sem við gátum tekið einn milljarð af rekstri sjóðsins til að koma til móts við þær þarfir sem núna eru hvað brýnastar í hagsmunum og hagsmunamálum stúdenta.

Þetta mál er náttúrlega allrar athygli vert og ég vil gjarnan á góðum tímum ef hirslur ríkissjóðs væru stútfullar geta sagt, já við skulum bara að klára þetta mál. En ég get það ekki á þessari stundu því að mér finnst vanta núna, og við höfum verið að kalla eftir því bæði þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu, að sjá heildarmyndina á ríkisfjárlögum. Mér finnst erfitt að fara að afgreiða þetta mál þegar heildarsýnin á ríkisfjármálum til lengri tíma liggur ekki fyrir, því að það stendur mjög klárt í umsögn fjármálaráðuneytisins að óvissuþættir við kostnaðarmat séu talsverðir og það sé óvíst hversu mikil útgjaldaaukningin gæti orðið.

Það liggur fyrir að það verða brýnir hagsmunir sem við þurfum að uppfylla og koma til móts við hjá námsmönnum. Þeim mun fjölga, á krepputímum fjölgar námsmönnum. Tekjur greiðenda lækka umtalsvert og það er mjög líklegt að vanskil sjóðsins muni aukast, ekki út af afnámi ábyrgðarmanna heldur eru almennt miklar líkur á að vanskil aukist. Það þýðir að fjárþörf sjóðsins mun líka aukast.

Því spyr ég: Var þetta rétta forgangsröðunin akkúrat núna? Hefði ekki verið betra að bíða með að leggja málið fram þar til að við sjáum heildarmyndina á ríkisfjármálum og getum tekið afstöðu til þess og forgangsraðað? Við viljum koma til móts við námsmenn. Var þetta akkúrat rétta skrefið? Er ekki betra að við höfum fjármuni innan sjóðsins til að mæta þörfum þeirra sem vilja sækja háskóla? Við höfum m.a. stuðlað að því að námsmönnum hefur fjölgað á Íslandi, námsbrautum hefur fjölgað út af sterkri stöðu lánasjóðsins. Við gátum það þá. Núna verður að reyna að viðhalda því, koma fólki til náms og þá þarf auðvitað og eðlilega að forgangsraða innan sjóðsins.